Vestramenn hafa tilkynnt Daniel Badu sem nýjan aðalþjálfara meistaraflokks karla. Vestri féll úr Bestu deildinni í sumar eftir hreinan úrslitaleik í lokaumferðinni gegn KR.
Undir lok tímabilsins hætti Davíð Smári með liðinu og Jón Þór Hauksson var fenginn vestur til að klára tímabilið.
Daniel Badu er nú tekinn við liðinu en hann spilaði og þjálfaði Hörð á Ísafirði sem er venslalið Vestra. Hörður leikur í 5. deildinni og endaði í 5. sæti í A riðlinum í sumar.
Það voru margir orðaðir við starfið á Ísafirði en nú er ljóst að Daniel mun stýra liðinu í Lengjudeildinni næsta sumar. Ferran Montes Corominas, sjúkraþjálfari Vestra, hefur þá framlengt einnig samningnum sínum og er þá orðinn líka þrek- og styrktarþjálfair liðsins.
Pétur Bjarna og Elmar Atli framlengja
Pétur Bjarnason og Elmar Atli Garðarsson hafa þá framlengt sömuleiðis við Vestra. Þeir eru báðir uppaldir Vestramenn en félagið bindir miklar vonir við þá.
Í tilkynningu Vestra segir að fleiri fréttir af væntanlegum aðstoðar- og markvarðarþjálfara félagsins séu væntanleg.
Athugasemdir




