Búast við að De Bruyne skrifi undir - Chelsea vill kaupa Trafford - Thiago spilandi aðstoðarþjálfari Barca - PSG býður 100 milljónir fyrir...
   sun 12. maí 2013 07:00
Aðsendir pistlar
Pistill: Pistlar á Fótbolta.net eru viðhorf höfundar og þurfa ekki endilega að endurspegla viðhorf vefsins eða ritstjórnar hans.
Leikgreining á leik Breiðabliks og Þórs
Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Aðsendir pistlar
Aðsendir pistlar
Ingvi Þór Sæmundsson (til hægri) ásamt David May.
Ingvi Þór Sæmundsson (til hægri) ásamt David May.
Mynd: Ingvi Þór Sæmundsson
Mynd: Ingvi Þór Sæmundsson
Mynd: Ingvi Þór Sæmundsson
Mynd: Fótbolti.net - Torfi Jóhannsson
Mynd: Fótbolti.net - Torfi Jóhannsson
Mynd: Fótbolti.net - Torfi Jóhannsson
Mynd: Fótbolti.net - Torfi Jóhannsson
Mynd: Fótbolti.net - Torfi Jóhannsson
Það verður seint sagt að hinn margumtalaða vorbrag hafi verið að finna á spilamennsku Breiðabliks í leiknum gegn Þór síðastliðinn sunnudag. Blikum hefur verið spáð toppbaráttu og miðað við frammistöðu liðsins á sunnudaginn eru þær spár á rökum reistar, þótt það verði að taka með í reikninginn að andstæðingurinn var ekki sá sterkasti.

Eins og Tómas Þór Þórðarson benti á í umfjöllun um leikinn í Morgunblaðinu á mánudaginn var hugsun í öllu í leik Blikaliðsins. Leikplanið var skýrt og gekk nánast fullkomlega upp, en fátt í leik Blika var tilviljunum háð öfugt við leik mótherjans sem bauð lengst af leiks upp á lítið annað en útíbuskannspyrnur og brot.

Blikar byrjuðu leikinn af miklum krafti og strax í upphafi var ljóst hvar þeir ætluðu að herja á Þórsliðið, á hægri bakvörðinn Giuseppe Joe Funicello. Sóknaruppbygging Blika var skipulögð, en sóknirnar hófust oftast á því að annar djúpu miðjumannanna, Finnur Orri Margeirsson eða Andri Rafn Yeoman, dró sig til baka og staðsetti sig á milli miðvarðanna. Blikar mynduðu þannig þriggja manna vörn þegar þeir voru með boltann sem gerði þeim kleift að ýta bakvörðunum, og þá sérstaklega Kristni Jónssyni, ofarlega á völlinn. Barcelona er meðal liða sem hafa beitt svipaðri aðferð á síðustu árum eins og lesa má um í pistlum, t.d. hér og hér, Michaels Cox sem heldur úti hinnu frábæru síðu Zonalmarking.net.

Með boltann leit uppstilling Blika þannig út eins og 3-4-3 (sjá mynd til hliðar). Kristinn spilaði mjög hátt uppi á vellinum, svo mjög að hann var oft í línu við hægri kantmanninn, hvort sem það var Nicolas Rohde eða Árni Vilhjálmsson. Elfar Árni Aðalsteinsson var svo mjög klókur með staðsetningar sínar; hann dró sig inn á völlinn af vinstri kantinum og opnaði svæði fyrir Kristin, en samvinna þeirra tveggja var afbragðs góð og minnti um margt á svipaða samvinnu Guðmundar Reynis Gunnarssonar og Óskars Arnar Haukssonar hjá KR síðustu 2-3 árin.

Blikarnir stjórnuðu umferðinni fyrstu 10-15 mínútur leiksins og Þórsarar áttu fá svör við tíðum áætlunarferðum Kristins upp vinstri kantinn sem var saga leiksins. Mark Tubæk, sem byrjaði á hægri kantinum hjá Þór, gerði lítið af því að hjálpa Funicello sem lenti hvað eftir annað í þeirri stöðu að þurfa einn að verjast bæði gegn Elfari og Kristni. Orrarnir tveir, djúpu miðjumenn Þórs, voru auk þess tregir til að koma Funicello til hjálpar svo hlutskipti hans var ekki eftirsóknarvert. Þór sótti þó í sig veðrið eftir því sem leið á fyrri hálfleikinn þrátt fyrir að hafa lent undir eftir rúmlega 20 mínútna leik þegar Elfar skoraði eftir að hafa leikið Orra Sigurjónsson grátt. Páll Viðar Gíslason þjálfari Þórs skipti fyrirliðanum Sveini Elíasi Jónsson yfir á hægri kantinn í stað Tubæks um svipað leyti og markið kom. Sveinn spilaði mjög hátt uppi á vellinum sem var að vissu leyti rökrétt í ljósi þess hversu framarlega Kristinn spilaði. Þórsarar náðu þó sjaldan að nýta sér það, enda var uppspil þeirra ómarkvisst og einkenndist af vonarboltum. Það var þó eftir einn slíkan sem Sveinn fékk besta færi Þórs í fyrri hálfleiknum, hann slapp einn fyrir eftir mistök í vörn Blika, en hitti ekki markið. En þrátt fyrir að Þórsarar væru með meira lífsmarki en í byrjun leiks voru Blikar þó alltaf með undirtökin og hefðu getað bætt við marki þegar Elfar skallaði sendingu Andra yfir. Sá síðarnefndi átti frábæran leik, en hann er eins konar íslensk útgáfa af Luka Modric.

Leikurinn var í jafnvægi seinni hluta fyrri hálfleiks eins og áður sagði. Það breyttist hins vegar í síðari hálfleik sem var eign Blika frá upphafi til enda. Sú breyting sem Ólafur Kristjánsson hafði gert undir lok fyrri hálfleiks - að láta Árna Vilhjálmsson og Nicolas Rodhe, sem virkaði ryðgaður í fyrri hálfleik, skipta um stöður - bar ríkulegan ávöxt í þeim seinni. Á 50. mínútu bættu Blikar við marki. Boltinn barst til Árna sem kom á móti boltanum og sneri á Atla Jens Albertsson. Hlynur Atli Magnússon, hinn miðvörður Þórs, tók í kjölfarið þá undarlegu ákvörðun að æða út úr sinni stöðu og skilja þannig stórt svæði fyrir aftan vörnina. Árni sendi svo boltann inn í þetta svæðið fyrir Rohde, sem stakk Inga Frey af og komst einn í gegn og skoraði framhjá Joshua Wicks í marki Þórs.

Uppskriftin að markinu var mjög svipuð og að mörkunum tveimur sem Rohde skoraði í 2-0 sigri Blika á Stjörnunni í lokaleik Pepsi-deildarinnar í fyrra. Hann spilaði þar á hægri kantinum og stakk sér hvað eftir annað í sama svæði og í markinu gegn Þór, en Stjörnumenn, líkt og Þórsarar, skildu mikið svæði eftir fyrir aftan vörnina. Í leiknum gegn Stjörnunni vann Ólafur H. Kristjánsson einn merkilegasta taktíska sigur síðari ára, en hann útskýrði leikplan sitt svo eftir umræddan leik: „Ég lagði leikinn þannig upp að fara aftur fyrir Stjörnumennina, fara aftur fyrir vörnina hjá þeim. Þeir pressa varnarlínuna hjá sér óhemjulega hátt upp, spila maður á mann, elta nánast það sem er að gerast, þannig að Arnar Már (Björgvinsson) gat teymt Daníel Laxdal út og suður og við gátum sett Rohde í gegn aftur og aftur og aftur. Þeir voru með sóknarmann í bakverðinum og það var veisla“. Í Þórsleiknum léku Blikar þennan leik - að láta fremsta mann koma á móti boltanum og teyma annan miðvörð andstæðinganna með mér, og senda boltann síðan á Rohde sem hleypur af hægri kantinum inn í svæðið sem opnast – ekki jafn oft og gegn Stjörnunni, en þó nógu oft til að það skilaði marki.

Blikar bættu þriðja markinu við þegar Árni skoraði af harðfylgi eftir Wicks hafði varið skot hans. Í aðdraganda marksins komst Árni einn í gegnum flata vörn Þórs eftir stungusendingu Guðjóns Péturs Lýðssonar sem átti góðan seinni hálfleik eftir að hafa verið rólegur í þeim fyrri. Aftur leit Þórsvörnin illa út: Hlynur og Atli stigu báðir út á móti Guðjóni og skildu eftir sig svæði sem Blikarnir nýttu sér til fullnustu. Í bæði öðru og þriðja markinu stigu miðverðir Þórs út úr vörninni á meðan bakverðirnir sátu eftir en slík uppröðun á varnarlínu er sjaldnast ávísun á eitthvað gott. Ljóst er að nokkuð skortir á samhæfingu hjá varnarlínu Þórs sem kann að skýrast af þeirri staðreynd að leikurinn á sunnudaginn var aðeins þriðji opinberi leikurinn sem Atli og Hlynur byrja saman inn á, samkvæmt heimasíðu KSÍ.

Það var þó ekki einungis vörn Þórs sem var flöt heldur átti það einnig við miðjuna, þ.e. tvo aftari miðjumennina. Í seinni hálfleik gerðist það allavega 3-4 sinnum að Blikar tóku Orranna báða úr leik með einni sendingu á milli þeirra, sem gaf Kópavogsliðinu, og þá sérstaklega Guðjóni, tækifæri til að ráðast á óvarða Þórsvörnina. Páll Viðar þarf að finna leiðir til þess að þétta lið sitt og koma í veg fyrir að það myndist jafn stór svæði bæði fyrir aftan varnarlínuna og á milli hennar og djúpu miðjumannanna tveggja, líkt og gerðist í seinni hálfleik, en Páll Viðar sagði í viðtali eftir leikinn að lið hans hafi litið illa út í seinni hálfleik þegar aginn og skipulagið, sem hafði verið í lagi í fyrri hálfleiknum, fauk út um gluggann.

Árni skoraði fjórða mark Blika eftir fyrirgjöf Kristins, en þá má segja að biðinni eftir hinu óhjákvæmilega hafi lokið. Kristinn og Elfar léku lausum hala allan leikinn og Þórsarnir voru, eins og áður sagði, ekki nógu duglegir að hjálpa Funicello, og síðan Janez Vrenko sem tók stöðu hans í hægri bakverðinum eftir klukkutíma leik. Þór náði að klóra í bakkann í uppbótartíma þegar Jóhann Helgi Hannesson, sem hafði komið inná sem varamaður, skallaði hornspyrnu Tubæks í netið. Nokkru áður höfðu Akureyringar þó fengið gott færi eftir einstaklingsframtak Sveins Elíasar, en Gunnleifur varði skot hans. Þórsarar náðu þó aldrei að skapa færi eða hættu eftir spil og samvinnu manna í milli, en sóknarleikur þeirra var mjög tilviljanakenndur og ómarkviss, öfugt við sóknarleik Blika sem var hugmyndaríkur og skipulagður. Edin Beslija fékk boltann of sjaldan en það var helst í kringum hann sem Þórsarar náðu upp einhverju spili.

Jóhann Þórhallsson, fremsti maður Þórsara, gerði lítið í leiknum, en það verður gaman að sjá hvort leikur þeirra breytist til batnaðar þegar Chukwudi „Chuck“ Chijindu kemur inn í liðið, en hann heldur boltanum mjög vel uppi á vellinum, eitthvað sem Jóhanni tókst ekki að gera í leiknum á sunnudaginn. Þórsarar þurfa þó ekki að örvænta þrátt fyrir tapið gegn Blikum; það eru 21 leikur eftir af mótinu og þar af 11 á heimavelli þar sem Þórsarar tapa sjaldnast. Chuck kemur til með að styrkja liðið fram á við og varnarlínan á eflaust eftir að verða betri og samhæfðari með fleiri leikjum.

Hvað Blikana varðar, þá lofaði frammistaða þeirra góðu fyrir framhaldið í sumar. Vörnin var traust og sóknarleikurinn fjölbreyttur og beittur. Þeir bjuggu ítrekað til hættu vinstra megin með því að ýta Kristni hátt upp á völlinn og leikur liðsins batnaði svo eftir að Árni og Rohde skiptu um stöður. Í framhaldinu verður athyglisvert að sjá hvort Ólafur H. Kristjánsson muni byrja með Rohde á hægri kantinum og Árna fremstan í næsta leik gegn ÍBV í Vestmannaeyjum; það virkaði afar vel í leiknum gegn Þór á sunnudaginn var og í ljósi þess væri það rökrétt ákvörðun.
Athugasemdir
banner
banner