Dyche að taka við Forest - Chelsea vill Aghehowa - Njósnarar Barcelona sáu Greenwood fara á kostum
   mán 20. október 2025 18:25
Ívan Guðjón Baldursson
Meistaradeild Asíu: Milos steinlá gegn Tractor - Diaby fór á kostum
Mynd: Sharjah
Mynd: Aston Villa
Mynd: Al Ittihad
Þremur fyrstu leikjum dagsins er lokið í Meistaradeild Asíu þar sem lærisveinar Milos Milojevic í Al-Sharjah steinlágu á heimavelli gegn Tractor frá Íran.

Tractor komst í fjögurra marka forystu í fyrri hálfleik og vann að lokum 0-5 í Sameinuðu arabísku furstadæmunum.

Leikurinn sjálfur var þó nokkuð jafn en munurinn á liðunum var að hver einasta marktilraun gestanna frá Tractor endaði einhvern veginn í netinu.

Regi Lushkja, sem var lykilmaður í albanska liðinu Egnatia á síðustu leiktíð, skoraði tvennu fyrir Tractor í þessum stórsigri. Lushkja mætti Blikum í sumar en fékk rautt spjald í 1-0 sigri á heimavelli og fékk því ekki að taka þátt í 5-0 tapi á Kópavogsvelli.

Hann lék á móti Víkingi R. í fyrra en tókst ekki að skora og náði sér í gult spjald í einvíginu sem Víkingar unnu að lokum, samanlagt 2-1.

Þetta er fyrsta tap Al-Sharjah á meistaradeildartímabilinu og er liðið með fjögur stig eftir þrjár umferðir. Þetta var fyrsti sigurinn hjá Tractor, sem er með fimm stig.

Sádi-Arabíska stórveldið Al-Ittihad mætti einnig til leiks í dag og skóp þægilegan sigur á útivelli gegn Al-Shorta frá Írak.

Heimamenn í liði Al-Shorta tóku forystuna snemma leiks en Moussa Diaby, fyrrum leikmaður Aston Villa, sneri stöðunni við með aðstoð frá liðsfélögunum. Hann jafnaði metin og svo tók Fabinho, fyrrum leikmaður Liverpool, forystuna með marki skömmu síðar.

Staðan var 1-2 í leikhlé og fékk Danilo Pereira, fyrrum leikmaður PSG, að líta rautt spjald í upphafi síðari hálfleiks. Það kom ekki að sök þar sem tíu leikmenn Al-Ittihad bættu tveimur mörkum við.

Diaby lagði bæði mörkin upp fyrir Houssem Aouar, fyrrum leikmann Lyon til margra ára. Lokatölur 1-4 fyrir Al-Ittihad sem var að ná í sín fyrstu stig í Meistaradeildinni í haust eftir óvænta tapleiki í fyrstu tveimur umferðunum.

Al-Ittihad er því einu stigi á eftir Al-Sharjah á stöðutöflunni, en efstu 8 félögin af 12 fara áfram í útsláttarkeppnina.

Al-Wahda frá Furstadæmunum lagði að lokum Al-Duhail frá Katar að velli. Krzysztof Piatek, fyrrum leikmaður AC Milan, skoraði fyrsta mark leiksins fyrir Al-Duhail en heimamenn sneru stöðunni við.

Lokatölur 3-1 fyrir Al-Wahda sem var með Dusan Tadic í byrjunarliðinu hjá sér. Marco Verratti og Luis Alberto voru í byrjunarliði Al-Duhail ásamt Piatek.

Al-Shorta 1 - 4 Al-Ittihad
1-0 Bassam Shakir ('5)
1-1 Moussa Diaby ('17)
1-2 Fabinho ('29)
1-3 Houssem Aouar ('60)
1-4 Houssem Aouar ('76)
Rautt spjald: Danilo Pereira, Al-Ittihad ('50)

Al-Wahda 3 - 1 Al-Duhail
0-1 Krzysztof Piatek ('20)
1-1 M. Khribin ('35, víti)
2-1 B. Diarra ('45+2)
3-1 A. Zouhir ('67)

Al-Sharjah 0 - 5 Tractor
Athugasemdir