Dyche að taka við Forest - Chelsea vill Aghehowa - Njósnarar Barcelona sáu Greenwood fara á kostum
   mán 20. október 2025 22:23
Ívan Guðjón Baldursson
Andrews: Thiago er alvöru markaskorari
Andrews tók við Brentford í sumar.
Andrews tók við Brentford í sumar.
Mynd: Brentford
Thiago er kominn með 6 mörk í 9 leikjum á upphafi tímabils.
Thiago er kominn með 6 mörk í 9 leikjum á upphafi tímabils.
Mynd: Brentford
Damsgaard gaf ellefu stoðsendingar á síðustu leiktíð í ensku úrvalsdeildinni.
Damsgaard gaf ellefu stoðsendingar á síðustu leiktíð í ensku úrvalsdeildinni.
Mynd: EPA
Keith Andrews þjálfari Brentford var hress eftir þægilegan sigur á útivelli gegn West Ham United þar sem lærlingar hans unnu 0-2 en hefðu getað skorað meira.

Brentford er komið fimm stigum frá fallsvæðinu með þessum sigri, þar sem liðið á 10 stig eftir 8 umferðir.

„Ég er mjög ánægður, þetta var frábær frammistaða og mögulega sú besta frá okkur hingað til á þessu tímabili. Ég var smá smeykur þegar ég sá öll færin sem fóru í súginn en svo tókum við forystuna og stjórnuðum leiknum. Við gáfum ekki færi á okkur en það þarf bara andartak til að skora í fótbolta, eins marks forysta er mjög hættuleg," sagði Andrews og ræddi svo um Igor Thiago sem skoraði fyrra mark leiksins. Hann setti boltann aftur í netið skömmu síðar en markið ekki dæmt gilt vegna afar naumrar rangstöðu.

„Thiago er alvöru markaskorari, hann er mjög erfiður fyrir varnarmenn að eiga við. Þar að auki er hann með stóran og frábæran persónuleika, hann er gull af manni. Ég tengdi strax við hann þegar ég tók við þjálfun hérna útaf því að hann var búinn að vera meiddur svo lengi. Hann kom til félagsins og meiddist strax og ég fann hvað hann þráði mikið að spila fótboltaleiki og gera vel.

„Ég legg alltaf meira á mig til að tengja við meidda leikmenn útaf því að ég hef sjálfur verið í þeirri stöðu sem leikmaður og veit hvernig tilfinningin er. Ég hef mikla trú á Thiago, hann er gríðarlega metnaðarfullur og jákvæður einstaklingur. Hann smitar út frá sér og er mikilvægur partur af liðinu hjá okkur."


Andrews hrósaði einnig Jordan Henderson í hástert að leikslokum, hann kemur með mikilvæga reynslu inn í ungt lið.

„Jordan er lykilmaður fyrir okkur, við þurfum á reynslunni hans að halda útaf því að við erum með svo ungt lið. Mér líður mjög vel í starfinu hérna og ég er ánægður með leikmannahópinn. Við getum gert góða hluti."

Thiago var einnig ánægður að leikslokum. Hann þakkaði guði og danska liðsfélaga sínum Mikkel Damsgaard sérstaklega fyrir.

„Ég klúðraði fyrsta færinu og hugsaði með mér að ég yrði að skora með næsta tækifæri og það gerðist. Guð er góður við mig. Liðið spilaði mjög vel og við þurfum að halda svona áfram," sagði Thiago.

„Ég vona að ég geti haldið áfram að skora mörk, ég held áfram að leggja mikið á mig til að geta verið í byrjunarliðinu með Mikkel (Damsgaard) og skorað mörk. Hann er frábær leikmaður, ótrúlega klár. Við náum mjög vel saman á vellinum."
Athugasemdir
banner