Hjulmand helsta skotmark Man Utd - Fulham vill halda Marco Silva - Spænsku risarnir fylgjast með Guehi
   þri 21. október 2025 17:17
Elvar Geir Magnússon
Sigurður Egill tók afsökunarbeiðni Vals
Sigurður Egill Lárusson.
Sigurður Egill Lárusson.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Valur og Sigurður Egill Lárusson hafa sent frá sér sameiginlega yfirlýsingu eftir fjölmiðlafár síðustu daga.

Þar kemur fram að aðilar hafi rætt saman og málinu sé lokið af beggja hálfu. Sigurður Egill var ósáttur með hvaða hætti félagið tilkynnti honum að honum yrði ekki boðinn nýr samningur. Valur bað Sigurð Egil afsökunar og hann tók þeirri afsökunarbeiðni.

Nýjustu og líklega síðustu yfirlýsinguna vegna málsins má sjá hér að neðan.

Yfirlýsing frá stjórn Knattspynudeildar Vals og Sigurði Agli Lárussyni
Sigurður Egill Lárusson er leikjahæsti leikmaður Vals í efstu deild og er því fyrir löngu kominn í sögubækur félagsins. Viðskilnaður hans við félagið hefur verið til umræðu í fjölmiðlum síðustu daga þar sem Sigurður hefur lýst yfir óánægju sinni með vinnubrögð Björns Steinars Jónssonar, formanns knattspyrnudeildar Vals. Hefur Sigurður tjáð sig opinberlega hvernig honum var tilkynnt sú ákvörðun stjórnar knattspyrnudeildar að bjóða honum ekki nýjan samning með skilaboðum í gegnum messenger.

Ljóst er að samskiptin voru ekki með þeim hætti sem Knattspyrnufélagið Valur vill eiga við sína leikmenn og samræmast í engu gildum félagsins.

Björn Steinar átti fund með Sigurði Agli fyrr í dag þar sem farið var yfir þessi samskipti og var Sigurður formlega beðinn afsökunar á þeim. Sigurður tók þeirri afsökunarbeiðni.

Knattspyrnufélagið Valur mun sýna Sigurði þá virðingu sem honum ber í ljósi afreksferils hans hjá félaginu.

Þessu máli er lokið af hálfu beggja aðila.

Björn Steinar Jónsson, formaður knattspyrnudeildar Vals
Athugasemdir