Dyche að taka við Forest - Chelsea vill Aghehowa - Njósnarar Barcelona sáu Greenwood fara á kostum
   mán 20. október 2025 13:21
Sæbjörn Þór Þórbergsson Steinke
Skrítin stund á Akureyri - Faðmaði KA menn eftir stórt tap
Skagamenn gátu fagnað þó að leikurinn í gær hafi tapast.
Skagamenn gátu fagnað þó að leikurinn í gær hafi tapast.
Mynd: ÍA
Skagamenn í stúkunni.
Skagamenn í stúkunni.
Mynd: Sævar Geir Sigurjónsson
Eggert er ánægður með sinn mann Lárus Orra.
Eggert er ánægður með sinn mann Lárus Orra.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
„Þetta var skrítið augnablik, drulluðum upp á bak á móti KA en fögnuðum samt. Þetta var að einhverju leyti blendið í gær," segir Eggert Herbertsson, formaður fótboltadeildar ÍA, við Fótbolta.net.

ÍA hélt sér uppi í Bestu deildinni í gær þrátt fyrir stórtap, 5-1, gegn KA á útivelli. Á sama tíma spiluðu Vestri og Afturelding og þar sem Afturelding vann ekki þann leik varð ljóst að ÍA væri öruggt með sæti sitt í deildinni.

„Það var búið að flauta af, ég og Ingimar (framkvæmdastjóri ÍA) stöndum þar sem leikmenn labba út af og fara inn í klefa. Við vorum að horfa á leikinn í síma og reyna láta ekki alla sjá að við værum að horfa. Svo þegar þeir skora fögnum við mikið, ég stekk á hann og faðma svo Hans Viktor (Guðmundsson, leikmann KA) sem ég þekki ekki neitt og alla sem voru þarna. Þeir spurðu, eðlilega, hvort við hefðum ekki verið að skíttapa," segir Eggert léttur.

Ef Vestri hefði ekki jafnað undir lok leiks gegn Aftureldingu hefði ÍA þurft að fara í úrslitaleik gegn Aftureldingu um sæti í deildinni. Tap gegn Aftureldingu og sigur annað hvort KR eða Vestra á sama tíma hefði þýtt að ÍA yrði í Lengjudeildinni á næsta tímabili. En við markið hjá Ágústi Eðvaldi Hlynssyni í uppbótartíma var sæti ÍA tryggt.

Varstu orðinn stressaður?

„Það hefði verið stíf vika framundan, augljóslega betra að þurfa ekki að fara í slíka viku og geta byrjað núna að aðeins að hugsa um framhaldið. Við höfum ekki getað hugsað neitt um það, höfum verið út í miðri á í erfiðu verkefni og sett framhaldið til hliðar. Nú er það framundan."

Er fyrirhugaður fundur með Lárusi Orra í vikunni?

„Það er ekki búið að setja neitt slíkt upp, en það væri fínt að fara ræða við hann sem fyrst."

Ef þú fengir að stjórna atburðarásinni, verður Lárus þá áfram þjálfari ÍA?

„Ég þarf að ræða það við stjórnina. Hann er búinn að vinna frábært starf. Hver hafði trú á því eftir tapið í Eyjum að hann myndi ná að snúa þessu við? Það voru allir búnir að dæma okkur niður. Geggjaður árangri hjá honum, teyminu og liðinu að vinna fimm leiki í röð."

Eftir 19 umferðir var ÍA sjö stigum frá öruggu sæti í deildinni og hafði ekki unnið sigur í fjórum leikjum í röð. Það voru nánast allir, nema mögulega þeir sjálfir, sem töldu að þeir myndu falla. Þá gerði ÍA sér lítið fyrir og vann fimm leiki í röð.

ÍA vann Breiðablik í fyrsta leik eftir landsleikjahlé, það var fyrsti sigurinn í fimm leikja hrinunni. Fannstu einhverja breytingu í aðdragandanum?

„Ég tók ekki eftir því í aðdragandanum, en þegar ég sá menn labba út á völlinn sást að þeir voru allir hnarreistir og allir klárir í alvöru stríð - það sást í augunum á þeim. Sem betur fer voru þeir það og leikirnir gegn Blikum tveir af bestu leikjum okkar í sumar," segir formaðurinn.
Besta-deild karla - Neðri hluti
Lið L U J T Mörk mun Stig
1.    KA 26 10 6 10 41 - 46 -5 36
2.    ÍBV 26 9 6 11 31 - 33 -2 33
3.    ÍA 26 10 1 15 36 - 50 -14 31
4.    Vestri 26 8 5 13 25 - 39 -14 29
5.    KR 26 7 7 12 50 - 61 -11 28
6.    Afturelding 26 6 9 11 36 - 45 -9 27
Athugasemdir
banner
banner