Hjulmand helsta skotmark Man Utd - Fulham vill halda Marco Silva - Spænsku risarnir fylgjast með Guehi
   þri 21. október 2025 22:41
Jóhann Þór Hólmgrímsson
Viktor Bjarki: Draumur að skora á stærsta sviðinu
Mynd: EPA
Mynd: EPA
Viktor Bjarki Daðason, leikmaður FCK, skoraði í sínum fyrsta Meistaradeildarleik í kvöld þegar liðið tapaði 4-2 gegn Dortmund á Parken í Danmörku.

Viktor Bjarki er aðeins 17 ára gamall og er þriðji yngsti markaskorari í sögu keppninnar. Hann kom inn á þegar stundafjórðungur var til loka venjulegs leiktíma og hann klóraði í bakkann í uppbótatíma þegar hann skoraði með skalla. Hann ræddi við danska miðilinn Copenhagen Sundayseftir leikinn.

„Þetta er stórkostleg tilfinning. Þetta er stærsta svið heims, það hefur verið draumur hjá mér í mörg ár að spila í Meistaradeildinni," sagði Viktor Bjarki.

Hann fagnaði markinu ekki mikið, hann vildi skora fleiri.

„Ég var bara að hugsa um að fara til baka og vonandi skora fleiri mörk og komast aftur inn í leikinn. Auðvitað var ég mjög ánægður innra með mér," sagði Viktor Bjarki.

„Það er mögnuð tilfinning. Parken er eitthvað annað, stemningin og grasið, þetta er ótrúlegt."

Hann þreytti frumraun sína um helgina þegar hann kom inn á og lagði upp mark liðsins í 3-1 tapi gegn Silkeborg í dönsku deildinni.

„Ég legg hart að mér til að fá fleiri mínútur og ætla að sýna að ég er tilbúinn. Ef þjálfarinn vill eitthvað frá mér þá get ég verið tilbúinn til að gera það, það er aðal markmiðið," sagði Viktor.


Athugasemdir