Man Utd á eftir De Ligt - Greenwood eftirsóttur - Olise nálgast Chelsea - Mourinho vill fá Lindelöf
   þri 14. maí 2024 15:00
Sæbjörn Þór Þórbergsson Steinke
Léttir að sjá Lyngby aftur á réttri leið - „Hann er bara Breiðhyltingur"
Freysi var þjálfari Lyngby í tvö og hálft tímabil.
Freysi var þjálfari Lyngby í tvö og hálft tímabil.
Mynd: Getty Images
Sævar Atli.
Sævar Atli.
Mynd: Fótbolti.net - Elvar Geir Magnússon
Lyngby fór á dögunum langleiðina með að halda sæti sínu í dönsku úrvalsdeildinni með öflugum sigri á OB. Liðið vann 1-2 útsigur og er nú sex stigum fyrir ofan OB þegar þrjár umferðir eru eftir af tímabilinu.

Lyngby er mikið Íslendingafélag, þeir Sævar Atli Magnússon og Andri Lucas Guðjohnsen skoruðu í leiknum og voru báðir í liði vikunnar í kjölfarið. Kolbeinn Birgir Finnsson er einnig leikmaður liðsins og var hann á sínum stað í byrjunarliðinu gegn OB.

Freyr Alexandersson var þjálfari Lyngby á síðasta tímabili þegar liðið gerði kraftaverk og náði að bjarga sæti sínu í deildinni. Hann þjálfaði liðið áfram en í janúar var hann svo keyptur til belgíska félagsins Kortrijk.

Fótbolti.net ræddi við Freysa í gær og var hann spurður út í Lyngby.

„Ég næ ekki að horfa kannski á alla leiki en ég fylgist klárlega með öllu. Ég er mjög ánægður að þeir eru búnir að ná saman vopnum aftur og líta út fyrir að vera það lið sem þeir vilja standa fyrir; maður sér einkenni liðsins aftur. Leikmenn eru flottir og David þjálfari er flottur. Þetta lítur bara vel út og frábær sigur um síðustu helgi. Mér er bara mjög létt að þetta sé á réttri leið - fyrir hönd klúbbsins og strákanna - að þetta líti betur út," sagði Freysi.

Sævar Atli skoraði og lagði upp gegn OB. Tímabilið hans hefur ekki verið frábært, náði ekki að sýna sitt rétta andlit og var að glíma við kviðslit. Sævar hefur lagt upp fjögur mörk og skorað fjögur á tímabilinu.

„Það er frábært að sjá hann finna taktinn aftur, hann er búinn að vera stórkostlegur. Síðasta haust var hann bara meiddur, var að ströggla. En hann er bara Breiðhyltingur, fer ekkert að væla og keyrir bara í gegnum sársaukann. Það kemur auðvitað stundum niður á spilamennsku. Hann setur alltaf liðið í fyrsta sætið og ég sem þjálfari set prís á það. Geggjað að sjá hann núna vera kominn aftur í flæði og hann er hrikalega mikilvægur þessu liði," sagði Freysi.

Freysi var spurður út í Andra Lucas Guðjohnsen í þriðja og síðasta hluta viðtalsins sem birtur verður seinna í dag.
Athugasemdir
banner
banner
banner