Malen, Maguire, Rashford, Greenwood, Yoro, Eriksen og fleiri góðir í slúðri dagsins
banner
   þri 15. október 2019 09:51
Elvar Geir Magnússon
Bjarni Ólafur og Jósef Kristinn orðaðir við Grindavík
Bjarni Ólafur Eiríksson.
Bjarni Ólafur Eiríksson.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Varnarmaðurinn reyndi Bjarni Ólafur Eiríksson er orðaður við Grindavík eftir að Sigurbjörn Hreiðarsson var kynntur sem nýr þjálfari liðsins í gær.

„Er ekki best að segja sem minnst. Samningurinn minn rennur út eftir tímabilið og við sjáum til hvort ég verði í Val áfram eða færi mig um set. Ég er alveg opinn fyrir öllu," sagði Bjarni, sem er 37 ára, við Fótbolta.net í síðasta mánuði.

Hann hefur einnig verið orðaður við Vestra og ÍBV.

„Það verður fróðlegt að sjá hvað Grindvíkingar ætla að gera," sagði íþróttafréttamaðurinn Tómas Þór Þórðarson í Innkastinu sem kom inn á Fótbolta.net í gær en Grindavík féll úr Pepsi Max-deildinni í sumar.

Jósef Kristinn Jósefsson hefur verið orðaður við heimkomu í Grindavík. Þessi þrítugi bakvörður hefur spilað fyrir Stjörnuna undanfarin ár.

„Það kæmi engum á óvart, allavega ekki okkur, ef Bjarni Ólafur Eiríksson myndi fylgja Sigurbirni Hreiðarssyni. Hann er ólíklegur til að vera áfram í Val og af hverju ekki að fylgja Bjössa til Grindavíkur? Hann gæti jafnvel færst í miðvörðinn ef Jobbi kemur líka," segir Tómas.

Nafn Kristins Inga Halldórssonar, sóknarmanns Vals, kom einnig í umræðuna í Innkastinu þegar rætt var um mögulega leikmenn sem Sigurbjörn gæti náð í.

„Bjössi og Óli hafa gríðarlega sterkt tengslanet sem hjálpar alltaf," segir Gunnar Birgisson.

„Nú þarf Sigurbjörn Hreiðarsson að sanna sig sem aðalþjálfari. Hann er mögulega að fá flottasta starfið í Inkasso-deildinni, það er ætlast til þess að menn í þessu starfi geri góða hluti og félagið hefur verið með góða þjálfara í gegnum tíðina. Bjössi flaug ekki með himinskautum þegar hann var aðalþjálfari á Ásvöllum um árið," segir Tómas Þór.

Sjá einnig:
Bjössi Hreiðars: Verð alltaf að hafa einn Óla með mér
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner