fös 15. október 2021 10:12
Hafliði Breiðfjörð
Alisson og Fabinho fljúga beint til Madrídar - Ekki með um helgina
Alisson og Fabinho sem eru hér með Roberto Firminho
Alisson og Fabinho sem eru hér með Roberto Firminho
Mynd: EPA
Jurgen Klopp knattspyrnustjóri Liverpool hefur staðfest að markvörðurinn Alisson og miðjumaðurinn Fabinho verði ekki með liðinu í ensku úrvalsdeildinni um helgina.

Þeir voru báðir í leikmannahóp Brasilíu gegn Úrúgvæ í nótt og munu ekki fljúga aftur til Englands til að vera með í leiknum gegn Watford sem hefst 11:30 í fyrramálið.

Klopp tilkynnti á fréttamannafundi rétt í þessu að þeir muni báðir fljúga beint til Madrídar þar sem liðið á leik gegn Atletico Madríd Meistaradeildinni á þriðjudagskvöldið.

„Atletico er ekki að spila um helgina og þannig yrði þetta aldrei gert hérna. Ákörðun okkar er að drengirnir munu fara beint til Madrídar og bíða eftir okkur. Þeir koma aðeins seinna til baka en við og mæta svo í venjulegan undirúning," sagði Klopp í morgun.

Hann hafði áður gagnrýnt leikjaniðurröðunina í síðasta mánuði en aðeins 35 klukkustundir eru milli leiksins í Brasilíu og leiksins gegn Watford á morgun. „Auðvitað hugsaði enginn út í leikjaniðurröðunina og þetta er vandamál Liverpool, ekki vandamál annarra. Þetta er gott fyrir Watford. Ég skil hreinlega ekki hvernig það er hægt að gera þessa hluti og enginn bregst við," sagði ósáttur Jurgen Klopp á blaðamannafundi í síðasta mánuði.

Athugasemdir
banner
banner
banner
banner