lau 17. ágúst 2019 15:12
Ívan Guðjón Baldursson
Aubameyang: Erum sterkari eftir sumarið
Mynd: Getty Images
Pierre-Emerick Aubameyang skoraði sigurmarkið er Arsenal lagði Burnley að velli 2-1 í dag. Aubameyang gerði einnig sigurmarkið gegn Newcastle í fyrstu umferð.

Að leikslokum var hann ánægður með sigurinn og sagðist vera sérstaklega ánægður með nýju leikmennina sem gengu í raðir Arsenal í sumar.

„Það er mikilvægt að koma inn í leikinn gegn Liverpool með tvo sigra á bakinu. Okkur líður vel og við erum fullir af sjálfstrausti," sagði Aubameyang.

„Okkur líður betur með leikmenn eins og David Luiz, Dani Ceballos og Pepe innanborðs. Við erum sterkari eftir sumarið og ætlum að berjast um Meistaradeildarsæti."

Unai Emery segir að þrátt fyrir sigurinn hafi hans menn ekki spilað nægilega vel og það sé margt sem má bæta fyrir næsta leik. Arsenal heimsækir Liverpool í stórleik næstu helgi.

„Við erum ánægðir að sigra fyrsta heimaleik tímabilsins þó við höfum ekki stjórnað leiknum eins og við vildum. Við mættum mjög sterku liði og það eru jákvæðir og neikvæðir hlutir sem við tökum úr þessum leik," sagði Emery.

„Ég er ánægður með nýju strákana og við erum stoltir af sigrinum. Við þurfum samt að bæta okkur, við vorum að tapa auðveldum boltum og getum spilað mun betur."
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner