Sancho á leið til Ítalíu - Bayern í viðræðum við Chelsea - Arsenal og Man Utd á eftir leikmanni PSG
   sun 17. ágúst 2025 15:25
Brynjar Ingi Erluson
Mörk Hákonar og Giroud dugðu ekki til - Fanney greip tækifærið
Hákon skoraði í fyrsta leik tímabilsins
Hákon skoraði í fyrsta leik tímabilsins
Mynd: EPA
Fanney Inga stóð í marki toppliðs Häcken
Fanney Inga stóð í marki toppliðs Häcken
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Hákon Arnar Haraldsson var á skotskónum í svekkjandi 3-3 jafntefli gegn Brest í 1. umferð frönsku deildarinnar í dag.

Lille heimsótti Brest í opnunarumferðinni og var Olivier Giroud, nýr liðsfélagi Hákonar, að snúa aftur í deildina þrettán árum eftir að hafa farið til Englands.

Giroud stimplaði sig strax inn. Hann skoraði eftir rúmar tíu mínútur og bætti Hákon við öðru marki liðsins eftir að hafa stolið boltanum af varnarmanni Brest, hlaupið upp völlinn og afgreitt hann snyrtilega í vinstra hornið.

Brest kom til baka með marki sitt hvoru megin við hálfleikinn áður en Ngalayel kom Lille aftur í forystu hálftíma fyrir leikslok. Aftur svaraði Brest og þar við sat. Svekkjandi hjá Lille að landa ekki sigri en liðið getur bætt upp fyrir það þegar það tekur á móti Mónakó næstu helgi.

Fanney sneri aftur í byrjunarlið Häcken

Landsliðsmarkvörðurinn Fanney Inga Birkisdóttir sneri aftur í byrjunarlið Häcken sem vann 5-0 stórsigur á Växjö.

Hún byrjaði í markinu í fyrstu umferðinni en síðan þá þurft að sætta sig við bekkjarsetu. Fanney kom aftur inn í liðið í dag og má segja að hún hafi gripið tækifærið.

Bryndís Arna Níelsdóttir var ekki með Växjö en hún hefur verið frá vegna meiðsla síðustu mánuði.

Sigdís Eva Bárðardóttir kom inn af bekknum hjá Norrköping sem vann Linköping, 2-0. María Catharina Ólafsdóttir Gros lék allan leikinn með Linköping.

Häcken er á toppnum í deildinni með 33 stig, Norrköping í 9. sæti með 18 stig og Linköping í botnsætinu með aðeins 5 stig þegar fjórtán umferðir hafa verið leiknar.
Athugasemdir
banner