Xavi hefur byrjað þjálfaraferilinn sinn gríðarlega vel þar sem hann var ráðinn til Barcelona eftir tvö og hálft ár hjá Al-Sadd þar sem hann gegndi fyrsta starfi sínu sem aðalþjálfari fótboltafélags.
Xavi gerði frábæra hluti við stjórnvölinn hjá Al-Sadd og hélt stórkostleg byrjun á þjálfaraferlinum áfram þegar hann var ráðinn til Barcelona í nóvember 2021. Hann vann spænsku deildilina með Barcelona á síðustu leiktíð og virðast leikmenn njóta þess að spila undir hans stjórn.
„Ég er hamingjusamur hjá Barca, verkefnið er að ganga vel. Ég er búinn að skrifa undir nýjan samning, sem verður tilkynntur á næstu dögum," sagði Xavi og svaraði svo gagnrýnisröddum úr spænskum fjölmiðlum. „Þegar þið talið illa um mig þá hlæ ég bara vegna þess að þið hafið reynt að kenna mér um ýmislegt á þessu ári. En samt er ég tilnefndur til 'The Best' verðlaunanna."
Xavi svaraði einnig spurningum varðandi leikmenn, þar sem Vitor Roque, Ez Abde, Ferran Torres, Lamine Yamal og Alejandro Balde bárust til tals.
„Mér hefur verið sagt að Vitor Roque muni koma í janúar. Ég sé ekki hvers vegna þau félagsskipti ættu ekki að ganga upp en við verðum bara að bíða og sjá hvað gerist í janúar," sagði Xavi sem er spenntur fyrir Roque. Hann segir einnig að Abde Ezzalzouli gæti snúið aftur til Barca eftir að hafa verið seldur til Real Betis í sumar.
„Við erum með endurkaupsrétt á Abde þannig hann þarf ekki að vera endanlega farinn. Hann vildi sæti í byrjunarliðinu en ég gat ekki lofað honum því vegna mikillar samkeppni innan leikmannahópsins."
Kantmaðurinn öflugi Ferran Torres hefur farið vel af stað á nýju tímabili þar sem hann er kominn með þrjú mörk í fyrstu fjórum deildarleikjum Börsunga, þrátt fyrir að hafa yfirleitt komið inn af bekknum. Hann fékk tækifæri í byrjunarliðinu gegn Real Betis um helgina og skoraði í stórsigri.
„Ferran Torres er og mun vera mikilvægur hlekkur í hópnum hjá okkur, hann hefur farið vel af stað eftir gott undirbúningstímabil."
Að lokum var komið að ungstirnunum Lamine Yamal og Alejandro Balde, þar sem Xavi staðfesti að strákarnir efnilegu væru að gera nýja samninga við félagið.
„Eftir mínu besta viti eru samningsviðræður við Lamine Yamal og Alejandro Balde mjög langt komnar. Það er stutt í tilkynningu."
Yamal er 16 ára gamall kantmaður og Balde er 19 ára bakvörður. Þeir eru báðir byrjaðir að spila fyrir spænska A-landsliðið þrátt fyrir ungan aldur.