Malen, Maguire, Rashford, Greenwood, Yoro, Eriksen og fleiri góðir í slúðri dagsins
   lau 19. júní 2021 12:19
Brynjar Ingi Erluson
Thiago: Ég hata nútímafótbolta og VAR
Mynd: EPA
Thiago Alcantara, miðjumaður Liverpool og spænska landsliðsins, er ekki hrifinn af því hvernig fótboltinn hefur þróast síðustu ár og þá er hann ekki sérstakur aðdáandi af VAR.

FIFA heimilaði notkun á VAR-tækninni á HM í Rússlandi árið 2018 en árið áður var hún notuð í þýsku deildinni og þá hefur verið notast við tæknina í MLS-deildinni í Bandaríkjunum.

Í dag er VAR í öllum stærstu deildum Evrópu en Thiago er ekki hrifinn af þessari þróun. Tæknin hefur verið umdeild, þá sérstaklega á Englandi, en hún hefur þó ekki flækst fyrir á Evrópumóti landsliða í ár.

„Ég er með þetta hugarfar að hata nútímafótbolta. Það má segja að ég sé af gamla skólanum. Svo er það VAR, sem ég hef alltaf verið á móti. Það tekur kjarnann og fegurðina úr þessu."

„Við gerum mistök þegar við spilum. Dómarar gera það líka og mikið af goðsagnakenndum augnablikum væru ekki til með tilkomu VAR. Þegar þú skorar stórkostlegt mark frá miðju þá þarftu samt að bíða og vonast til að það hafi ekki verið brot í uppbyggingu sóknarinnar eða að það hafi verið rangstaða,"
sagði Thiago ennfremur sem hefur sterkar skoðanir á þessu.

Fótboltinn er farinn að þróast og finnur Thiago fyrir því.

„Fótboltinn hefur skipt um gír. Hraðinn, takturinn og líkamleg geta meiri. Hlutverk tíunnar er nánast horfið. Við sjáum minna af göldrum og fantasíum. Leikmenn gera meira en þetta er hraðara og það er óþarfi að rekja boltann því þú ert á hlaupum."

„Leikmenn hafa þróast á öllum sviðum. Þú missir þennan leikmann sem er öðruvísi. Leikstjórnandinn sem var hægari þó hann var með svakalega tækni fær ekki tækifæri til að snúa sér og þeir leikmenn sem eru ekki hraðir í löppunum verða að vera fljótari að hugsa. Þetta er eins og með allt annað, það er að aðlagast. Hlutirnir breytast hratt og fótboltinn er alltaf að taka breytingum,"
sagði hann í lokin.
Athugasemdir
banner
banner
banner