sun 20. september 2020 17:24
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
England: Meistararnir höfðu betur í stórleiknum
Liverpool með fullt hús stiga.
Liverpool með fullt hús stiga.
Mynd: Getty Images
Alisson varði vítaspyrnu Jorginho.
Alisson varði vítaspyrnu Jorginho.
Mynd: Getty Images
Chelsea 0 - 2 Liverpool
0-1 Sadio Mane ('50 )
0-2 Sadio Mane ('54 )
0-2 Jorginho ('75 , Misnotað víti)

Englandsmeistarar Liverpool höfðu betur gegn Chelsea í stórleik helgarinnar í ensku úrvalsdeildinni.

Meistararnir fara ansi vel af stað þetta tímabilið. Þeir höfðu betur gegn nýliðum Leeds í fyrsta leik og fara í kvöld heim frá London með þrjú stig í pokanum.

Staðan var markalaus í hálfleik en undir lok fyrri hálfleiks fékk danski varnarmaðurinn Andreas Christensen að líta rauða spjaldið fyrir brot á Sadio Mane í góðu marktækifæri. Dómari leiksins skoðaði atvikið í VAR og dró í kjölfarið upp rauða spjaldið.

Liverpool var ekki lengi að láta til sín taka einum fleiri í byrjun seinni hálfleiks.

Mane kom Liverpool yfir á 50. mínútu og stuttu síðar kom annað markið eftir hræðileg mistök frá Kepa Arrizabalaga, markverði Chelsea. Hann var of lengi á boltanum og Mane komst inn í sendinguna.

Sjá einnig:
Sjáðu markið: Kepa með skelfileg mistök gegn Liverpool

Þegar leið á seinni hálfleikinn tókst Chelsea að skapa sér nokkur færi. Þegar stundarfjórðungur var eftir af venjulegum leiktíma dró svo til tíðinda þegar Thiago, átti mjög góðan leik í frumraun sinni með Liverpool, braut á Timo Werner innan teigs. Jorginho fór á punktinn en Alisson var staðráðinn í að halda hreinu og hann varði vítið.

Þar við sat og lokatölur 2-0 fyrir Liverpool sem er með fullt hús stiga eftir tvo leiki. Chelsea er með þrjú stig.

Önnur úrslit:
England: Kane lagði fjórum sinnum upp fyrir Son í stórsigri
England: Brighton skoraði þrjú gegn Newcastle
Athugasemdir
banner
banner
banner