Newcastle vill læra af síðasta sumri - Arsenal í baráttu við PSG um leikmann - Man Utd búið að krækja í ungan leikmann
banner
   mán 21. apríl 2025 18:07
Ívan Guðjón Baldursson
Besta deild kvenna: Þór/KA heppnar að sigra Tindastól
Kvenaboltinn
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Þór/KA 2 - 1 Tindastóll
0-1 Makala Woods ('5)
1-1 Karen María Sigurgeirsdóttir ('52)
2-1 Bríet Jóhannsdóttir ('88)

Lestu um leikinn: Þór/KA 2 -  1 Tindastóll

Þór/KA og Tindastóll áttust við í fyrri leik dagsins í Bestu deild kvenna og tóku gestirnir frá Sauðárkróki forystuna snemma leiks þegar Makala Woods kom boltanum í netið.

Makala var vel staðsett og hafði heppnina með sér þegar boltinn datt fyrir hana innan vítateigs hjá Akureyringum í kjölfar aukaspyrnu.

Þór/KA var sterkari aðilinn en átti í erfiðleikum með að skapa sér færi, á meðan Stólarnir vörðust vel og fengu hættulegt færi eftir varnarmistök en tókst ekki að nýta það. Staðan 0-1 í leikhlé.

Makala komst nálægt því að tvöfalda forystuna í upphafi síðari hálfleik en tókst ekki. Þór/KA refsaði með jöfnunarmarki í kjölfarið, þegar Karen María Sigurgeirsdóttir skoraði með góðu skoti eftir að hafa hæft stöngina skömmu áður.

Leikurinn var rólegur eftir þetta og lítið um færi þar til Bríet Jóhannsdóttir kom boltanum í netið með ótrúlegu marki á 88. mínútu. Hún var með boltann við vítateigshornið og gaf sendingu meðfram jörðinni sem fór í gegnum allan pakkann í vítateignum og rúllaði alla leið yfir marklínuna. Bríet skoraði þannig með sendingu sem varnarmenn Tindastóls réðu ekki við.

Þetta reyndist sigurmark leiksins og heppilegur sigur Þórs/KA staðreynd.

Akureyringar eru komnar með sex stig eftir tvær umferðir. Sauðkrækingar eru með þrjú stig eftir að hafa lagt FHL að velli í fyrstu umferð.
Athugasemdir
banner
banner