Barcelona og Man City vilja Olmo - Liverpool gæti reynt við Kudus - Chelsea og Barcelona hafa áhuga á Dybala
   fim 22. september 2022 11:37
Elvar Geir Magnússon
Souness segist ekkert hafa á móti Grealish - „Hefði gaman af því að fara út á lífið með honum“
Greame Souness.
Greame Souness.
Mynd: Getty Images
Jack Grealish.
Jack Grealish.
Mynd: Getty Images
Sparkspekingurinn Greame Souness segist ekki hafa neitt á móti Jack Grealish né nokkrum öðrum. Souness sagði á dögunum að Grealish væri ekki fljótur að læra og hefði ekki bætt sig síðan Manchester City keypti hann frá Aston Villa á 100 milljónir punda á síðasta ári.

Grealish, sem er með enska landsliðinu í landsliðsverkefni, sagði í viðtali í gær að Souness hefði eitthvað á móti sér.

„Ég veit ekki hvað hann hefur svona á móti mér. Hann er alltaf að tala um mig en ég reyni að lesa það ekki of mikið. Það er erfitt þegar hann er á Sky Sports og það er út um allt á æfingasvæðinu stundum. Hann var frábær leikmaður og vann mikið en ég veit ekki hvað hann hefur á móti mér," sagði Grealish.

Souness var í viðtali á TalkSport útvarpsstöðinni í dag og tjáði sig um ummæli Grealish. Hann hefur einnig verið sakaður um að vera of strangur við Paul Pogba, fyrrum miðjumann Manchester United.

„Ég hef ekkert á móti honum, ég hef ekkert á móti nokkrum manni. Það er ekkert vandamál varðandi Jack. Mér finnst hann góður leikmaður, tæknileg geta hans er frábær. Þegar ég tjáði mig Paul Pogba var ég sá fyrsti sem sagði að Pogba væri bara miðlungsmaður í ensku deildinni. Ég held að það hafi sýnt sig að lokum að ég hafði rétt fyrir mér," segir Souness.

„Ég er viss um að ef ég myndi hitta Jack þá kæmi okkur vel saman. Ég held að hann sé skemmtilegur töffari. Ég væri til í að fara út á lífið með honum! En ég tel að leikmenn í dag taki gagnrýni ekki mjög vel. Jack á að hlusta á þá sem hann vill hlusta á."

„Ég er á TalkSport að spjalla við ykkur og ég elska það. Ég er með greinardálk hjá Daily Mail þar sem ég get sagt skoðanir mínar og svo er ég á Sky. Ég er búinn að vera í yfir 50 ár í boltanum, ég held að ég megi alveg hafa skoðun."

„Ég hef ekki horn í síðu neins. Svona er skoðun mín á Jack Grealish. Jack þarf ekki að hlusta á mig. Eina skoðunin sem á að skipta Jack Grealish máli er skoðun stjórans," segir Souness.

Grealish skoraði fyrsta mark sitt á tímabilinu gegn Úlfunum um síðustu helgi en hann skoraði aðeins þrjú úrvalsdeildarmörk á sínu fyrsta tímabili í treyju City.

Souness telur að Grealish sé of mikið að hanga á boltanum.

„Hann er svo góður að rekja boltann, mjög fáir leikmenn hafa þessa hæfileika sem fá áhorfendur til að rísa á fætur. En það þarf að koma eitthvað út úr því. Þetta snýst ekki um að rekja boltann framhjá einum, tveimur en svo missa boltann þegar reynt er við þriðja. Þetta er ellefu manna lið, níu af þeim eiga að sjá um að þjónusta þá fremstu," segir Souness.
Athugasemdir
banner
banner
banner