Man Utd ætlar að selja Antony - Zirkzee til Arsenal?
   fim 22. september 2022 11:47
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Viðtal
Var að glíma við andleg veikindi og hugsaði um að hætta í fótbolta
En svo kom HK og Ísland inn í myndina
Bruno Soares, varnarmaður HK.
Bruno Soares, varnarmaður HK.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Í leik með HK í sumar.
Í leik með HK í sumar.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Bruno fagnar marki.
Bruno fagnar marki.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Í baráttunni gegn Kórdrengjum.
Í baráttunni gegn Kórdrengjum.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Bruno vonast til þess að spila áfram á Íslandi næsta sumar.
Bruno vonast til þess að spila áfram á Íslandi næsta sumar.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
HK komst beint aftur upp eftir að hafa fallið á síðasta ári.
HK komst beint aftur upp eftir að hafa fallið á síðasta ári.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Er mjög þakklátur HK eftir sumarið.
Er mjög þakklátur HK eftir sumarið.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
HK-ingar fagna marki með Bruno.
HK-ingar fagna marki með Bruno.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Sætinu í efstu deild fagnað.
Sætinu í efstu deild fagnað.
Mynd: Fótbolti.net - Hulda Margrét
'Ég sagði við umboðsmanninn minn að HK er í forgangi. Ég vil halda áfram að spila eftir góðan tíma hérna. Ég vil taka næstu skref á Íslandi og vonandi með HK'
'Ég sagði við umboðsmanninn minn að HK er í forgangi. Ég vil halda áfram að spila eftir góðan tíma hérna. Ég vil taka næstu skref á Íslandi og vonandi með HK'
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
„Ég fer á morgun. Ég fer fyrst til Dusseldorf í Þýskalandi en börnin mín búa þar. Svo fer ég til Spánar og eftir það til Brasilíu. Það er planið," segir brasilíski miðvörðurinn Bruno Soares í samtali við Fótbolt.net.

Hann fer frá Íslandi í dag eftir að hafa leikið með HK í sumar. Bruno lék vel og var leiðtogi í liði HK sem fór beint aftur upp eftir að hafa fallið úr efstu deild á síðasta ári. Hann var valinn í lið ársins og var mjög mikilvægur fyrir Kópavogsfélagið.

Það hefur ekki oft gerst að leikmenn frá Brasilíu komi til Íslands að spila fótbolta, en Bruno fagnar því að bæta annars konar sósu í mixtúruna eins og hann sjálfur kemst svo skemmtilega að orði.

Hvernig endar hann á Íslandi?
Bruno er 34 ára gamall brasilískur miðvörður sem er með flotta ferilskrá. Hann á meðal annars mikinn fjölda leikja í þýsku B-deildinni, sem er mjög sterk.

Hvernig endar leikmaður eins og hann á litla Íslandi?

„Ég var að glíma við persónuleg vandamál eftir tíma minn í Austurríki. Ég tók í kjölfarið pásu frá fótbolta. Andleg heilsa mín á þeim tíma var ekki góð," segir Bruno.

„Ég rifti samningi mínum hjá Saarbrucken í Þýskalandi og fór heim til Brasilíu. Ég var að hugsa um að hætta í fótbolta á síðasta ári, en í janúar fór ég að hreyfa mig aftur. Ég fékk nokkur tilboð og voru sum þeirra mun betri fjárhagslega séð en tilboðið sem ég fékk frá HK."

Bruno heyrði af áhuga frá HK í apríl. Hann kom hingað til lands í nokkra daga og varð heillaður. Hann var ekki að hugsa um peninga, hann var að hugsa um að finna ánægjuna á ný í fótboltanum.

„Umboðsmaðurinn minn hafði samband við mig í apríl og talaði við mig um verkefnið hjá HK. Ég var ekki viss því ég var ekki búinn að heyra mikið áður um fótboltann á Íslandi. HK bauð mér að koma hingað í tvo, þrjá daga til að sýna mér aðstæður og til þess að ég fengi að kynnast landinu betur. Ég átti samtöl við þjálfarann (Brynjar Björn Gunnarsson). Ég hugsaði: 'Af hverju ekki?' HK var að leita að leiðtoga til að hjálpa liðinu að komast aftur upp í efstu deild. Þau voru viss um að sá leikmaður væri ég. Þetta var 'win-win' fyrir báða aðila. Ég varð fljótt hrifinn af landinu og félaginu. Um leið og ég hitti liðsfélagana þá leið mér eins og ég væri heima hjá mér."

„Þetta var rétt ákvörðun hjá mér. Ég var í tíu mánuði án félags en svo kom HK inn í myndina."

Það var mikilvægt fyrir hann að vera í kringum gott fólk og fá góða orku. Hann fann það strax í efri byggðum Kópavogs.

„Fyrir mig var það mikilvægt - eftir að ég var búinn að vera að glíma við persónuleg vandamál - að vera í kringum fólk sem myndi láta mér líða vel og gefa mér góða orku. Ég þarf góða orku. Þegar ég kom hingað að skoða aðstæður þá fann ég strax fyrir góðri orku. Samtalið mitt við Brynjar var mjög gott. Brynjar sannfærði mig og ég er honum þakklátur. Þegar ég hitti liðsfélaga mína þá fann ég að þetta væri fyrir mig. Mér leið vel hérna strax og þess vegna ákvað ég að koma."

Geta ekki ímyndað sér hversu mikið þau hafa gefið mér
Bruno segist hafa þurft að taka sér frí frá fótbolta út af vandamálum í fjölskyldu sinni sem tóku á andlega heilsu. Hann var að íhuga að hætta í fótbolta en hann segir að HK og íslenskur fótbolti hafi hjálpað sér að finna hamingjuna á ný við að gera það sem hann elskar hvað mest - að spila fótbolta.

„Ég þurfti að taka mér pásu frá fótbolta og ég tók þrjá, fjóra mánuði þar sem ég gerði ekkert. Ég fór heim til Brasilíu og hlóð batteríin."

„Ég fór svo aftur til Þýskalands og fór að æfa. Tók þetta skref fyrir skref. Í janúar var ég kominn í gott stand. Ég fékk nokkur tilboð í janúar en var ekki sannfærður. HK og Brynjar gáfu mér tilfinninguna að verkefnið hér væri fyrir mig. Þess vegna tók ég ákvörðunina að koma hingað."

Bruno á tvö börn í Þýskalandi, í Dusseldorf. Hann segir það erfitt að vera í öðru landi en þau, en allt fólkið hjá HK hafi hjálpað mikið.

„Það er búið að vera erfitt að vera fjarri börnunum mínum en þetta er góð staðsetning. Ég flýg frá Keflavík til Dusseldorf við hvert tækifæri - í hvert sinn sem við fáum frí. Þetta er bara þriggja tíma flug. Staðsetningin var mikilvæg því það er erfitt að vera fjarri börnunum mínum."

„Eftir síðasta leikinn gegn Vestra þá talaði ég við allt fólkið í búningsklefanum og þakkaði fyrir mig. Ég veit að ég gef þeim mikið með reynslu minni, ég veit að ég gef þeim mikið inn á vellinum en ég sagði þeim að þau gætu ekki ímyndað sér hversu mikið þau hefðu hjálpað mér. Þau komu mér aftur í fótbolta, gáfu mér adrenalínið aftur. Ég hef starfað við fótbolta í meira en 14 ár. Ég sagði við þau að ég vissi að ég hefði verið mikilvægur, en þau voru mun mikilvægari fyrir mig. Þau létu mér líða svo vel. Þau hjálpuðu mér mikið á meðan fjölskyldan mín er í öðrum löndum."

Var óheppinn að spila ekki í þýsku úrvalsdeildinni
Bruno fór ungur að árum frá Brasilíu til Þýskalands, að elta drauminn að spila fótbolta í Evrópu. Hann gekk í raðir Duisburg þegar hann var 19 ára gamall.

„Fyrrum umboðsmaður minn átti gott samband við umboðsskrifstofu í Þýskalandi. Þegar ég var 19 ára rann samningur minn út í Brasilíu. Ég fékk tilboð um að spila í B-deildinni í Brasilíu en það var alltaf draumur minn að spila í Evrópu. Umboðsmaður minn spurði mig hvort ég hefði áhuga á Þýskalandi - ég gæti hentað stílnum þar í landi. Ég ákvað að fara. Það var besta ákvörðun lífs míns," segir Bruno.

„Brasilíska hugarfarið blandað við þýska hugarfarið, það gerði mig að betri persónu. Ég varð að manni í Þýskalandi og lærði mikið, bæði innan sem utan vallar. Bæði börnin mín fæddust í Þýskalandi. Ég tala þýsku vel og eins þú heyrir þá er ég ekki eins góður í ensku. Þýskaland er mitt annað heimili núna."

Fyrir tímabilið 2012/13 þá gekk hann í raðir Fortuna Dusseldorf - sem voru þá nýliðar í þýsku úrvalsdeildinni - en hann spilaði ekkert vegna meiðsla.

„Ég var óheppinn að spila ekki í þýsku úrvalsdeildinni, en allt gerist af ástæðu. Ég meiddist og við vorum ekki viss um það hvort ég ætti að fara í aðgerð eða ekki. Ég reyndi að koma til baka án þess að fara í aðgerð, en það borgaði sig ekki. Ég var enn með verki og því var ákveðið að ég færi í aðgerð. Ég missti af mörgum mánuðum. Þegar ég kom til baka þá voru fáeinir leikir eftir og ég var á bekknum. Ég var leiður því við féllum."

„Ég spilaði ekki neitt í þýsku úrvalsdeildinni. Ég spilaði með liðinu í B-deildinni eftir að hafa náð góðum bata. Dusseldorf er núna í B-deild en þetta er stórt félag og það mæta alltaf 20-30 þúsund manns á leikina. Ég var óheppinn að meiðast á röngum tímapunkti," segir Bruno og bætir við:

„Allt í þessu lífi gerist af ástæðu. Ég var mjög sorgmæddur í Þýskalandi og hugsaði af hverju ég hefði meiðst á röngum tímapunkti. Svona er lífið. Ég lærði mikið. Við getum ekki breytt eftir á. Þetta er hluti af minni sögu. Ég lærði mikið og varð sterkari. Ef ég gæti farið aftur í tímann og spilað í Bundesligunni þá hefði ferillinn kannski verið öðruvísi. Við vitum það aldrei. Ég trúi á Guð og þetta er planið hans (e. God's plan)."

HK er í forgangi
Bruno hefur liðið gríðarlega vel á Íslandi og hann vonast til þess að halda vegferð sinni áfram, og þá vonandi með HK.

„Ég hef verið í sex eða sjö mánuði hérna og þeir hafa verið mjög árangursríkir, ég get sagt það. HK skiptir miklu máli fyrir mig og fjölskyldu mína. Félagið skiptir mig miklu máli. HK kom inn í líf mitt á mikilvægum tímapunkti því ég var að hugsa um að hætta í fótbolta. HK skiptir mig miklu máli því félagið hjálpaði mér að koma til baka, finna ánægjuna á ný. Liðsfélgarnir og stuðningsmennirnir hafa hjálpað mér mikið."

„Ég get spilað meira, ég get haldið áfram. Ég er mjög þakklátur félaginu og þann tíma sem ég hef átt hérna. Fjölskylda mín er líka þakklát. Ég elska félagið mikið. Liðsfélgarnir og þjálfarateymið er með stóran karakter og stórt hjarta. Ég hef aldrei fundið fyrir eins miklum liðsanda og hérna. Þetta skiptir mig miklu máli og ég er þakklátur öllum sem tengjast félaginu," segir Bruno.

Þegar hann er spurður hvort hann ætli að koma aftur í HK, þá segir hann:

„Það veltur á því hvað félagið er með planað og hvað félagið ætlar sér. Ég vil helst halda áfram vegferð minni með HK vegna þess að mér líður vel þar og félagið skiptir mig miklu máli. Mér líður eins og heima hjá mér í Kórnum. Ég vil halda áfram, en það veltur á plani félagsins og stefnu þeirra."

Það er áhugi á honum annars staðar frá, þar á meðal frá ónefndu félagi í Bestu deildinni.

„Umboðsmaður minn sagði mér fyrir tíu dögum að ég væri með önnur tilboð og önnur tækifæri, en ég sagði við hann að áður en við förum í viðræður við önnur félög að þá ræðum við HK. Eitt félag í Bestu deildinni vill fá mig. Ég get ekki sagt þér nafnið á félaginu. Umboðsmaður minn sagði það við mig, en ég sagði við hann að HK væri í forgangi. Áður en við ræðum við önnur félög þá vil ég heyra hvað HK vill gera. Ég get ekki sagt þér nafnið á félaginu."

„Ég hefði getað fengið betur borgað annars staðar, en peningar skipta ekki öllu máli. Ég segi þér það. Ég hef ekki enn farið í alvarlegar viðræður við HK um næsta tímabil. Ég sagði við umboðsmanninn minn að HK er í forgangi. Ég vil halda áfram að spila eftir góðan tíma hérna. Ég vil taka næstu skref á Íslandi og vonandi með HK. Það er líka gaman að vita að önnur félög vilja fá mig, það gerir mig ánægðan."

„Ég er mjög þakklátur liðsfélögum mínum og þjálfurum hjá HK því annars væri ekki mögulegt fyrir mig að taka skref áfram á ferlinum. Það er ekki auðvelt að koma til baka eftir að hafa verið svona lengi í burtu. HK og Bruno Soares var gott fyrir báða aðila; ég hjálpaði þeim og þeir hjálpuðu mér. Þess vegna er HK í forgangi, mér leið vel þar. Við sjáum hvað gerist á næstu vikum."

Væri þá tilbúinn að búa á Íslandi að eilífu
Bruno hefur ekkert nema gott um Ísland að segja. Það væri auðvitað betra fyrir hann að vera með fjölskylduna sína með sér hérna og þá mætti veðrið vera betra.

„Ef það væri sól á Íslandi á hverjum degi þá væri ég til í að búa á Íslandi að eilífu," segir Bruno léttur.

„Ég spilaði áður í Kasakstan í -25 gráðum. Ég hef spilað í nokkrum mismunandi löndum og er vanur alls konar veðráttu. Það mikilvægasta er fólkið í kringum mig. Íslenska fólkið er rosalega gott, vingjarnlegt og er alltaf tilbúið að veita hjálparhönd. Fólkið í kringum mig síðustu sjö mánuði hefur valdið því að mér líður eins og heima hjá mér á Íslandi. Það er mikilvægast fyrir mig."

„Ég elska sólina og vill hafa gott veður á hverjum degi, en það getur ekki allt verið fullkomið í lífinu. Veðrið er ekki aðalmálið, fólkið er það," segir Brasilíumaðurinn sem vonast til þess að snúa aftur í Kórinn næsta sumar, þá helst sem leikmaður HK.
Athugasemdir
banner
banner