þri 22. október 2019 19:00
Ívan Guðjón Baldursson
Meistaradeildin: Morata tryggði sigur gegn Leverkusen
Atletico Madrid er á toppi D-riðils Meistaradeildarinnar eftir nauman sigur á Bayer Leverkusen í dag.

Leikurinn var bragðdaufur og einkenndist af mikilli baráttu og miðjumoði. Alvaro Morata gerði eina mark leiksins á 78. mínútu eftir fasta fyrirgjöf frá Renan Lodi.

Þetta var þriðja tap Leverkusen í þremur leikjum og liðið því svo gott sem dottið úr leik. Slæmur árangur Leverkusen kemur á óvart, enda er liðið með sterkan leikmannahóp.

Atletico Madrid 1 - 0 Bayer Leverkusen
1-0 Alvaro Morata ('78)

Á sama tíma gerði Shakhtar Donetsk 2-2 jafntefli við Dinamo Zagreb í C-riðli og eru liðin jöfn með fjögur stig eftir þrjár umferðir.

Yehven Konoplyanka kom heimamönnum í Shakhtar yfir en Dani Olmo jafnaði eftir góða fyrirgjöf frá Mislav Orsic. Staðan var jöfn 1-1 í hálfleik.

Eftir leikhlé kom Orsic sínum mönnum yfir með marki úr vítaspyrnu. Andriy Pyatov, markvörðru Shakhtar, hafði þá gerst sekur um stórfurðulegt brot í hornspyrnu. Hann dró Mario Gavranovic, sóknarmann Zagreb, niður og þurfti Gavranovic að fara meiddur af velli eftir samskiptin.

Gestirnir frá Zagreb voru þó ekki lengi í paradís því Dodo jafnaði á 75. mínútu.

Shakhtar Donetsk 2 - 2 Dinamo Zagreb
1-0 Yevhen Konoplyanka ('16)
1-1 Dani Olmo ('25)
1-2 Mislav Orsic ('60)
2-2 Dodo ('75)
Athugasemdir
banner
banner