Arna Eiríksdóttir og Sædís Rún Heiðarsdóttir urðu bikarmeistarar með norska stórliðinu Vålerenga er liðið vann erkifjendur sína í Rosenborg, 2-0, í úrslitum í dag.
Sædís varð deildar- og bikarmeistari með Vålerenga á síðasta ári og var því að vinna bikarinn í annað sinn, en hún og Arna voru báðar í byrjunarliðinu í dag.
Í hálfleik tók þjálfari Vålerenga ákvörðun um að taka Sædísi af velli, en hún fékk gult spjald undir lok fyrri hálfleiks og eflaust ekki viljað taka óþarfa áhættu.
Þetta var fjórði bikarmeistaratitill Vålerenga en allir hafa komið á síðustu fimm árum.
Ágætis sárabót fyrir Vålerenga sem tapaði deildarmeistaratitlinum fyrir Brann í ár.
Hlín Eiríksdóttir spilaði allan leikinn með Leicester sem tapaði fyrir Crystal Palace, 3-0, í enska deildabikarnum. Leicester rétt missti af sæti í úrslitakeppnina en það er Palace sem fer þangað með fullt hús stiga.
Glódís Perla Viggósdóttir kom inn af bekknum í 5-1 sigri Bayern München á Hoffenheim.
Hún byrjaði leik liðsins í Meistaradeildinni í vikunni og líklega fyrirfram ákveðið að stýra mínútufjölda hennar í ljósi þess að hún var mikið frá í byrjun leiktíðar.
Miðvörðurinn kom inn þegar fimmtán mínútur voru eftir í þessum þægilega sigri.
Bayern er á toppnum með 31 stig, sex stigum meira en erkifjendur þeirra í Wolfsburg.
Athugasemdir


