Rob Edwards stýrði Wolves í fyrsta sinn í keppnisleik þegar liðið tók á móti Crystal Palace í ensku úrvalsdeildinni í gær.
Úlfarnir sýndu flotta frammistöðu og úr varð jafn leikur gegn sterku liði Palace, en gæðin í gestaliðinu frá London gerðu gæfumuninn.
Vængbakvörðurinn Daniel Munoz tók forystuna fyrir Palace um miðbik síðari hálfleiks og innsiglaði kantmaðurinn Yeremy Pino sigurinn skömmu síðar. Lokatölur 0-2 þrátt fyrir jafnan slag.
„Ég er mjög vonsvikinn með úrslitin en framlagið var til staðar og ég get ekki kvartað undan því. Það er ýmislegt sem við getum bætt en þessi leikur var mjög jafn og við vorum inni í honum allan tímann. Við vorum líklega betra liðið stærsta hluta leiksins og þeir voru heppnir að skora þetta fyrsta mark," sagði Edwards, sem er nýlega tekinn við hjá Wolves eftir frábært gengi við stjórnvölinn hjá Middlesbrough, eftir að hafa áður afrekað magnaða hluti með Luton Town.
„Þetta er svolítið saga tímabilsins hjá Wolves. Við erum óheppnir að fá fyrsta markið á okkur og svo gefum við þeim seinna markið á silfurfati. Eftir þetta fóru hlekkirnir af og strákarnir sköpuðu sér góðar stöður en tókst ekki að nýta færin.
„Þetta er líklega ástæðan fyrir því að ég var ráðinn hingað. Þetta er ekki eitthvað sem lagast á einni nóttu en það er margt jákvætt til staðar. Ef þið skoðið tölfræðina þá sjáið þið að það var ekki mikill munur á liðunum. Fótbolti á þessu gæðastigi snýst um smáatriðin og það er ástæðan fyrir því að við erum þar sem við erum á stöðutöflunni og þeir eru þar sem þeir eru. Það er ótrúlega stutt á milli þess að vinna og tapa í fótbolta.
„Við getum engum kennt um þetta tap nema okkur sjálfum. Það er mikilvægt að leggja mikla vinnu í að komast upp úr þessum slæma kafla, við verðum að finna sjálfstraustið. Þetta mun ekki gerast á einni viku, ég veit að ég get ekki smellt fingrunum til að laga stöðuna."
Úlfarnir eru á botni ensku deildarinnar með 2 stig eftir 12 umferðir.
„Núna fáum við heila viku til að undirbúa okkur fyrir leikinn gegn (Aston) Villa og vonandi náum við að bæta okkar frammistöðu á milli leikja.
„Við vildum allir óska þess að vera með töfrasprota en því miður er enginn okkar með svoleiðis. Eina leiðin til að laga ástandið er að standa saman og vinna að sameiginlegum markmiðum."
Stöðutaflan
England
Premier league - karlar
| L | U | J | T | ms: | mf: | mun | Stig | ||
|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|
| 1 | Arsenal | 11 | 8 | 2 | 1 | 20 | 5 | +15 | 26 |
| 2 | Chelsea | 12 | 7 | 2 | 3 | 23 | 11 | +12 | 23 |
| 3 | Man City | 12 | 7 | 1 | 4 | 24 | 10 | +14 | 22 |
| 4 | Crystal Palace | 12 | 5 | 5 | 2 | 16 | 9 | +7 | 20 |
| 5 | Brighton | 12 | 5 | 4 | 3 | 19 | 16 | +3 | 19 |
| 6 | Sunderland | 12 | 5 | 4 | 3 | 14 | 11 | +3 | 19 |
| 7 | Bournemouth | 12 | 5 | 4 | 3 | 19 | 20 | -1 | 19 |
| 8 | Tottenham | 11 | 5 | 3 | 3 | 19 | 10 | +9 | 18 |
| 9 | Aston Villa | 11 | 5 | 3 | 3 | 13 | 10 | +3 | 18 |
| 10 | Man Utd | 11 | 5 | 3 | 3 | 19 | 18 | +1 | 18 |
| 11 | Liverpool | 12 | 6 | 0 | 6 | 18 | 20 | -2 | 18 |
| 12 | Brentford | 12 | 5 | 1 | 6 | 18 | 19 | -1 | 16 |
| 13 | Everton | 11 | 4 | 3 | 4 | 12 | 13 | -1 | 15 |
| 14 | Newcastle | 12 | 4 | 3 | 5 | 13 | 15 | -2 | 15 |
| 15 | Fulham | 12 | 4 | 2 | 6 | 13 | 16 | -3 | 14 |
| 16 | Nott. Forest | 12 | 3 | 3 | 6 | 13 | 20 | -7 | 12 |
| 17 | West Ham | 12 | 3 | 2 | 7 | 15 | 25 | -10 | 11 |
| 18 | Leeds | 11 | 3 | 2 | 6 | 10 | 20 | -10 | 11 |
| 19 | Burnley | 12 | 3 | 1 | 8 | 14 | 24 | -10 | 10 |
| 20 | Wolves | 12 | 0 | 2 | 10 | 7 | 27 | -20 | 2 |
Athugasemdir



