Manchester United fundar nú með fótboltasamböndum Fílabeinsstrandarinnar, Kamerún og Marokkó, og sækist eftir því að halda þeim Amad Diallo, Bryan Mbeumo og Noussair Mazraoui lengur áður en Afríkukeppnin fer af stað.
Afríkukeppnin hefst 21. desember en samkvæmt FIFA mega þjóðirnar fara fram á að fá leikmennina tveimur vikum fyrir fyrsta keppnisdag.
Mbeumo hefur byrjað frábærlega með United og er strax orðinn mikilvægur partur af sóknarteymi liðsins, en hann mun spila með Kamerún í Afríkukeppninni. Diallo og Mazraoui spila einnig í keppninni með Fílabeinsströndinni og Marokkó.
BBC segir að Man Utd eigi að sleppa leikmönnunum 8. desember en félagið ætlar að reyna að halda þeim í viku til viðbótar, það er að segja þangað til eftir leikinn gegn Bournemouth.
Leikjadagskráin hjá United er þung í lok desember og byrjun janúar, og ljóst að leikmennirnir munu missa af mörgum mikilvægum leikjum.
„Það eru reglur um það hvenær við eigum að sleppa leikmönnunum, en við erum að reyna að halda þeim aðeins lengur. Þetta er ekki bara í okkar höndum en sjáum til hvað gerist. Við munum reyna að ná einhverju samkomulagi við fótboltasamböndin,“ sagði Ruben Amorim á dögunum.
Athugasemdir


