Þrír mega fara frá Man Utd - Barcelona ætlar að styrkja framlínuna - Stiller áfram orðaður við Real Madrid
banner
   lau 22. nóvember 2025 18:49
Ívan Guðjón Baldursson
Iraola: Hef ekki séð augljósara marktækifæri
Mynd: EPA
Mynd: EPA
Bournemouth tók á móti West Ham United í ensku úrvalsdeildinni í dag og komust gestirnir í tveggja marka forystu þökk sé tvennu frá Callum Wilson.

Heimamenn í Bournemouth skiptu um gír í seinni hálfleik og óðu í færum. Þeim tókst að minnka muninn á 69. mínútu og jafna tólf mínútum síðar en það dugði ekki til að krækja í sigur. Lokatölur urðu 2-2 og var Andoni Iraola svekktur að leikslokum.

„Þetta eru ekki góð úrslit fyrir okkur. Við gáfum þeim tvö mörk í fyrri hálfleik og þetta eru mörk sem við megum ekki gefa frá okkur. Við vorum miklu sterkara liðið í dag og áttum skilið að vinna," sagði Iraola, sem var ekki ánægður með dómgæsluna í einu atviki í seinni hálfleik þegar Bournemouth fékk dæmda vítaspyrnu.

„Þegar við fengum vítaspyrnu þá átti þetta að vera rautt spjald, það er deginum ljósara. Ég skil ekki ákvörðun dómarans að gefa ekki rautt þarna. Þeir áttu að spila manni færri síðasta hálftímann.

„Ég spurði dómarateymið út í þetta og þeir sögðu við mig að þarna væri ekki verið að ræna upplögðu marktækifæri, en ég er ósammála því. Ég hef ekki séð augljósara marktækifæri, þetta gerist í markteignum! Vanalega þegar dómarar taka ákvarðanir þá skil ég báðar hliðar en ekki í þessari ákvörðun. Ég skil hana bara ekki.

„Við gerðum allt í okkar valdi til að sigra í dag en (Alphonse) Arole var ótrúlegur á milli stanganna hjá West Ham. Við áttum skilið að ná í öll stigin en við fáum bara eitt stig. Við verðum að líta á það sem við gerðum illa í fyrri hálfleik þegar við gáfum þeim þessi mörk. Þetta er pirrandi fyrir okkur. Þeir nýttu sér okkar mistök en þeir sköpuðu sér engin færi þar fyrir utan."


Bournemouth byrjaði tímabilið af miklum krafti en tapaði svo tveimur leikjum í röð fyrir síðasta landsleikjahlé. Liðið er í sjöunda sæti úrvalsdeildarinnar með 19 stig eftir 12 umferðir. Stigið er dýrmætt fyrir West Ham sem er í fallbaráttu.
Athugasemdir
banner
banner
banner