Það var nóg um að vera í norska boltanum í dag og skoraði Stefán Ingi Sigurðarson tvennu í stórsigri Sandefjord gegn Strömsgodset.
Stefán Ingi setti tvennu í fjörugum fyrri hálfleik og var skipt af velli á 77. mínútu, en Sandefjord vann að lokum með sex mörkum gegn tveimur.
Sandefjord siglir lygnan sjó í fimmta sæti í efstu deild en Strömsgodset fellur niður, en það var ákveðið fyrir leik dagsins sem var aðallega upp á stoltið.
Lærisveinar Freys Alexanderssonar í liði Brann steinlágu þá á útivelli gegn Molde. Þetta er slæmur kafli fyrir Brann sem er aðeins komið með eitt stig úr síðustu fjórum deildarleikjum og þar með búið að missa af baráttunni um sæti í Meistaradeild Evrópu.
Brann er þó öruggt með sæti í forkeppni Sambandsdeildarinnar og getur komist í forkeppni Evrópudeildarinnar með sigri og hagstæðum úrslitum annars staðar í lokaumferðinni.
Eggert Aron Guðmundsson lék allan leikinn í tapinu en Sævar Atli Magnússon var ekki með vegna meiðsla.
Fyrr í dag gerði Grimsby Town jafntefli við Swindon Town í D-deildinni á Englandi en Jason Daði Svanþórsson var ekki í hóp. Valgeir Lunddal Friðriksson er þá að glíma við meiðsli og var því ekki með í sigri Fortuna Düsseldorf í næstefstu deild í Þýskalandi.
Að lokum var Davíð Kristján Ólafsson ónotaður varamaður í pólska boltanum, þegar Cracovia tapaði heimaleik gegn Motor Lublin.
Stromsgodset 2 - 6 Sandefjord
0-1 Stefán Ingi Sigurðarson ('1)
0-1 M. Farji, misnotað víti ('10)
1-1 M. Farji ('17)
1-2 E. Patoulidis ('27)
1-3 Stefán Ingi Sigurðarson ('33)
2-3 M. Farji ('45+4)
2-4 J. Hanstad ('71)
2-5 E. Pettersen ('79)
2-6 S. Kristiansen ('81)
Molde 4 - 0 Brann
Swindon 2 - 2 Grimsby
Dusseldorf 2 - 1 Magdeburg
Cracovia 1 - 2 Motor Lublin
Athugasemdir



