Man Utd og Liverpool vilja Anderson - Arsenal gæti gert óvænt tilboð í McTominay - Trafford orðaður við Wolves og Newcastle
banner
   fös 21. nóvember 2025 12:30
Sæbjörn Þór Þórbergsson Steinke
Viðtal
„Með möguleikann á því að verða sá langöflugasti á landinu"
Jökull Andrésson.
Jökull Andrésson.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mathias Rosenörn.
Mathias Rosenörn.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Vantar einn reynslumikinn inn eftir að Björn Daníel kallaði þetta gott?
Vantar einn reynslumikinn inn eftir að Björn Daníel kallaði þetta gott?
Mynd: Fótbolti.net - J.L.
Jökull Andrésson var á sunnudag kynntur sem nýr leikmaður FH en hann kemur til félagsins frá Aftureldingu. Fyrr í mánuðinum var greint frá því að Mathias Rosenörn, sem var aðalmarkvörður FH á tímabilinu, yrði ekki áfram hjá félaginu.

Fótbolti.net ræddi við Davíð Þór Viðarsson, yfirmann fótboltamála hjá FH, um markverðina. Hann var fyrst spurður út í Danann Rosenörn. Hvenær varð ljóst að FH vildi skoða annan kost í markið?

„Við vorum með tveggja ára samning við Mathias, ég hef orðið var við gagnrýnina sem kom á hann og að mörgu leyti finnst mér hún ósanngjörn. Hann kom með ákveðna eiginleika inn í leikinn okkar og mér fannst hann gefa okkur ákveðna ró varnarlega. Auðvitað koma alltaf augnablik þar sem þú vilt að markmaðurinn þinn geri betur. Báðir aðilar voru með uppsagnarákvæði í samningnum og við bara náðum ekki saman um nýjan samning. Ég hef verið mjög ánægður með Mathias, bæði sem týpu og sem leikmann."

„Þegar það varð ljóst að Mathias yrði ekki áfram og við vissum að það væri hægt að fá Jökul, þá gekk það mjög hratt fyrir sig."

„Jökull er allt öðruvísi týpa, hann er meiri 'shot-stopper' og kannski örlítið meira ráðandi í teignum heldur en Mathias. En svo eru hlutir, eins og uppspilið, þar sem Mathias hefur fram yfir Jökul eins og sakir standa. Það var engin spurning að fá Jökul inn þegar það varð möguleiki, mér finnst hann einn allra öflugasti markmaðurinn á landinu og er með möguleikann (e. potential) á því að verða sá langöflugasti. Nú er það okkar að hjálpa honum að taka það skref,"
segir Davíð.

Reynslumikið hryggjarstykki og efnilegri leikmenn í kring
Davíð var líka spurður út í stefnu FH. Tveir reynsluboltar eru farnir í hópnum, Björn Daníel Sverrisson lagði skóna á hilluna og Einar Karl Ingvarsson fékk ekki nýjan samning.

Umræðan um aldur og reynslu, ertu að leita að einu reynslupúsli í viðbót í hópinn?

„Umræðan hefur aðeins verið þannig að FH muni einungis spila á 19 ára strákum á næsta ári," segir Davíð á léttu nótunum. „Það er gaman að það sé umræða um íslenskan fótbolta, en auðvitað verður þetta ekkert þannig. Við erum með Bödda og Ísak Óla, sem er orðinn mjög reynslumikill og að mínu viti einn besti varnarmaðurinn í deildinni, við erum með (Kristján) Flóka, Grétar Snæ, Birki Val og Sigurð Bjart sem verður 27 ára á næsta ári. Það er ekki eins og við séum ekki með fullorðna leikmenn. Ég er ekki að segja að við munum aldrei ná í leikmann sem er eldri en 25 ára aftur. Ef við teljum að það sé einhver leikmaður í eldri kantinum sem getur hjálpað okkur, þá munum við að sjálfsögðu skoða það."

„Þetta snýst aðallega um það að þeir reynslumiklu leikmenn sem maður er með spili stórt hlutverk í liðinu. Það er það sem maður er að horfa í, að hryggjarstykkið sé reynslumikið, en að það sem er í kringum það sé kannski yngra og efnilegra og það sé möguleiki á því að búa til verðmæti, söluvörur, sem geta hjálpað félaginu,"
segir Davíð.

Davíð segir þá að FH muni kynna nýjan þjálfara til leiks í næstu viku, sú bið sé senn á enda.
Athugasemdir