Rashford yfirgefur Man Utd - Tottenham á eftir Alberti
   fim 24. júní 2021 09:51
Elvar Geir Magnússon
Máni býst við því að aðstoðardómarinn verði sendur í frí
Bryngeir Valdimarsson aðstoðardómari.
Bryngeir Valdimarsson aðstoðardómari.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
„Geri ráð fyrir að þessi línuvörður á Stjarnan - KA verði í fríi fram að næsta EM," skrifar Máni Pétursson, einn af sérfræðingunum á Stöð 2 Sport og stuðningsmaður Stjörnunnar, á Twitter.

Stjörnumenn eru allt annað en sáttir eftir dramatískt tap liðsins gegn KA í Mjólkurbikarnum í gær. Akureyrarliðið skoraði sigurmarkið í uppbótartíma þegar allt stefndi í framlengingu.

Markið átti hinsvegar ekki að standa þar sem boltinn var farinn út af vellinum áður en Elfar Árni Aðalsteinsson skoraði.

„Ég veit ekki hvað maður á að segja. Þetta er eitt það skrítnasta sem ég hef lent í inni á fótboltavelli. Allir og ömmur þeirra á vellinum sáu að boltinn var farinn út af. Allir nema blessaða þriðja liðið í þessum leik," sagði Brynjar Gauti Guðjónsson, varnarmaður Stjörnunnar, við Fótbolta.net eftir leikinn.

Bryngeir Valdimarsson er aðstoðardómarinn sem átti að fylgjast með línunni en í fyrri hálfleik leiksins hafði hann dæmt mark af Stjörnunni sem Þorvaldur Örlygsson, þjálfari Stjörnunnar fullyrðir að hafi verið rangur dómur.

„Við skoruðum tvö mörk í fyrri hálfleik sem voru bæði tekinn af okkur. Ég skoðaði þau á myndbandsupptöku og fyrsta markið okkar var löglegt. Það er líklegra að ég vinni í lottói um helgina heldur en ég fái útskýringar frá dómurunum, það er betra fyrir mig að taka þátt í lottóinu heldur en að eltast við dómarana," sagði Þorvaldur í samtali við Vísi.

Sjá einnig:
Skýrslan: Rándýr dómaramistök hjálpuðu KA áfram


Athugasemdir
banner
banner