West Ham blandar sér í baráttu um Soule - City hefur áhuga á Donnarumma - PSG vill leikmenn Man Utd
   mán 24. júní 2024 22:39
Brynjar Ingi Erluson
Southgate um gagnrýnina: Ég er mjög sáttur við það líf
Mynd: EPA
Mynd: EPA
Gareth Southgate, þjálfari enska landsliðsins, svaraði enskum miðlum vegna þeirrar gagnrýni sem liðið hefur fengið fyrir frammistöðuna á Evrópumótinu.

Frammistaða Englendinga hefur ekki verið sannfærandi í byrjun mótsins.

Það vann nauman 1-0 sigur á Serbíu í fyrsta leik en gerði síðan jafntefli við Dani í öðrum leiknum.

Southgate hefur spilað mönnum úr stöðum og þá hefur sóknarleikurinn verið afar slakur miðað við gæði leikmanna.

Alan Shearer og Gary Lineker gagnrýndu báðir Southgate og enska liðið eftir frammistöðuna gegn Dönum, en Harry Kane, fyrirliði Englands, skaut til baka og minnti þá á að eitt sinn klæddust þeir treyjunni. Bað hann um meiri nærgætni og virðingu í gagnrýni fjölmiðla.

„Þetta er heimurinn sem við lifum í. Þetta er ekki í mínu minni og alls ekki mikilvægt fyrir mig. Það sem er mikilvægt fyrir mig er að leiðbeina þessum leikmönnum í gegnum mót. Við erum stórt lið með væntingar og við skiljum að allt sem við gerum er grandskoðað. Ég er mjög sáttur við það líf.“

„Ég þarf ekki að hlusta á utanaðkomandi því ég er minn stærsti gagnrýnandi og það sama á við um leikmennina. Við vitum hvað við höfum gert vel og höfum verið mjög heiðarlegir varðandi það. Við vitum líka hvar við þurfum að bæta okkur og þar höfum við einnig verið hrottalega heiðarlegir. Þannig þjálfar þú lið og bætir frammistöðu.“

„Það frábæra við að vera í þessu starfi í svona langan tíma er að ég náði að átta mig á því hvernig best væri að meðhöndla sjálfan mig á sem bestan máta. Fyrir nokkrum árum hefði ég lesið eitthvað, hlustað og það hefði gert mig ótrúlega sorgmæddan og tekið orku frá mér, en núna slít ég öllu sambandi frá þessu. Ég get ekki sett mig í þessa stöðu því þá missi ég einbeitingu.“

„Þetta gefur mér frábært sjónarhorn. Við erum bara að hugsa um hvernig við getum bætt okkur. Við erum yfirvegaðir í því sem við erum að reyna að gera,“
sagði Southgate.
Athugasemdir
banner
banner
banner