Bayern München gæti gert óvænt tilboð í Rashford - Liverpool hafnaði fyrirspurn Bayern um Díaz og ætlar ekki að selja hann
   sun 24. október 2021 16:18
Brynjar Ingi Erluson
Spánn: Real Madrid með tak á Börsungum - Fjórði sigurinn í röð
Real Madrid vann Barcelona, 2-1, í El Clasico í spænsku deildinni í dag en þetta var fjórði leikurinn í röð sem Madrídingar vinna þennan slag í deildinni.

Leikurinn var líflegur frá fyrstu mínútu. Madrídingar sköpuðu sér fín færi í byrjun leiks en besta færið átti Sergino Dest, varnarmaður Barcelona. Memphis Depay kom sér inn í teiginn og fann Dest sem var kominn í dauðafæri gegn Thibaut Courtois en hann þrumaði boltanum yfir markið.

Sjö mínútum síðar skoraði austurríski varnarmaðurinn David Alaba. Hann vann boltann á eigin vallarhelming og kom boltanum áleiðis á Rodrygo. Brasilíski vængmaðurinn fann Alaba aftur sem þrumaði boltanum efst í hægra hornið. Óverjandi.

Alaba varðist þá vel undir lok fyrri hálfleiks er Ansu Fati mundaði skotfótinn. Alaba var fljótur til og komst fyrir skotið áður en flautað var til loka fyrri hálfleiks.

Liðin skiptust á að fá fínustu færi í síðari hálfleiknum. Börsungar vildu þá fá vítaspyrnu er Toni Kroos handlék knöttinn en dómarinn leit svo á sem hann hafi ekki verið inn í vítateig.

Börsungar fóru hærra á völlinn undir lokin og opnaðist þar pláss fyrir Madrídinga að keyra hratt fram. Marco Asensio átti skot sem Marc-andre Ter Stegen varði út í teiginn og náði Lucas Vazquez að hirða frákastið og skora.

Sergio Aguero minnkaði muninn tveimur mínútum síðar með sárabótamarki. Dest átt fyrirgjöf inn í teiginn og náði varamaðurinn Aguero að gera sér mat úr því og skora sitt fyrsta mark fyrir félagið. Lokatölur 2-1 fyrir Real Madrid sem vinnur fjórða leik sinn í röð í El Clasico og er á toppnum með 20 stig en Barcelona í 8. sæti með 15 stig.

Sevilla vann þá Levante 5-3 í miklum markaleik. Sevilla komst í 2-0 með mörkum frá Oliver Torres og Rafa Mir áður en Jose Luis Morales minnkaði muninn. Diego Carlos og Munir bættu við tveimur mörkum.

Levante náði tveimur mörkum á sex mínútum áður en Fernando Reges gerði út um leikinn með fimmta marki Sevilla sem er í öðru sæti deildarinnar með jafn mörg stig og Real Madrid, en slakari markatölu.

Úrslit og markaskorarar:

Barcelona 1 - 2 Real Madrid
0-1 David Alaba ('32 )
0-2 Lucas Vazquez ('90 )
1-2 Sergio Aguero ('90 )

Sevilla 5 - 3 Levante
1-0 Oliver Torres ('8 )
2-0 Rafa Mir ('24 )
2-1 Jose Luis Morales ('33 )
3-1 Diego Carlos ('38 )
4-1 Munir El Haddadi ('50 )
4-2 Jose Luis Morales ('55 )
4-3 Gonzalo Melero ('61 )
5-3 Fernando Reges ('64 )
Athugasemdir