banner
   sun 25. september 2022 12:47
Ívan Guðjón Baldursson
Lisandro Martínez: Mér er sama um gagnrýni frá fólki
Mynd: Manchester United

Argentínski varnarmaðurinn Lisandro Martínez var keyptur til Manchester United í sumar fyrir rúmlega 50 milljónir punda og hefur verið að spila sem miðvörður í leikkerfi Erik ten Hag sem notast við fjögurra manna varnarlínu.


Martínez hefur verið gagnrýndur fyrir hæð sína en hann er aðeins 175cm sem er ansi lítið fyrir miðvörð í ensku úrvalsdeildinni. Rauðu djöflunum gekk illa á upphafsvikum tímabilsins þar sem þeir töpuðu meðal annars gegn Brighton og Brentford og var Martinez á milli tannanna á fólki. 

Thomas Frank, knattspyrnustjóri Brentford, viðurkenndi að liðið hafi lagt upp með því að senda háa bolta fram til að setja Martínez í vandræði. Brentford vann leikinn 3-0 en ekkert markanna kom útfrá löngum bolta, heldur gerði David de Gea slæm mistök á milli stanganna og reyndist skúrkurinn.

„Mér er sama um gagnrýni frá fólki. Ég hef trú á sjálfum mér og mínum hæfileikum. Ég hef alltaf lagt mikla vinnu á mig og það er að skila árangri," sagði Martínez við TyC Sports.

„Það er draumur að rætast að spila fyrir risafélag eins og Manchester United. Það er draumur að spila í ensku úrvalsdeildinni sem er ein af bestu deildum í heimi. Ég er mjög hamingjusamur."

Man Utd tókst að snúa slæmu gengi við og er búið að sigra fjóra úrvalsdeildarleiki í röð. Martínez hefur fengið mikið lof fyrir sinn þátt í góðu gengi liðsins.


Athugasemdir
banner
banner
banner
banner