Gunnar Magnús Jónsson verður hluti af þjálfarateymi meistaraflokks kvenna hjá Haukum fyrir komandi keppnistímabil. Gunnar hefur undanfarið þjálfað í yngri flokkum félagsins en stígur núna líka inn í meistaraflokkinn.
Gunnar verður enn fremur áfram þjálfari 2. og 3. flokks kvenna hjá knattspyrnudeild Hauka og er ráðningin einnig liður í að skapa heildarsýn frá meistaraflokki og niður í 3. flokk. Þess má geta að 2. flokkur kvenna varð deildarmeistari B deildar Íslandsmótsins í sumar undir stjórn Gunnars.
Hörður Bjarnar Hallmarsson, sem verið hefur þjálfari meistaraflokks kvenna síðustu þrjú keppnistímabil, fagnar komu Gunnars inn í teymið.
„Ég lagði mikla áherslu á að fá Gunnar inn í meistaraflokksteymið enda býr hann yfir gríðarlegri þekkingu og reynslu. Við höfnuðum í sjötta sæti deildarinnar á síðasta tímabili sem nýliðar í Lengjudeildinni og stefnum að sjálfsögðu hærra næsta sumar," segir Hörður.
Gunnar, sem hefur meðal annars þjálfað meistaraflokk kvenna hjá Keflavík, Grindavík og Fylki, kveðst spenntur fyrir verkefninu.
„Við erum með ungt, efnilegt og spennandi lið, viljum styrkja ákveðnar stöður en um leið gefa ungum Haukastelpum tækifæri. Hörður hefur verið að gera flotta hluti með meistaraflokkinn síðustu þrjú ár og ég mun koma með ákveðna reynslu og þekkingu að borðinu,“ segir Gunnar Magnús við heimasíðu Hauka.
Athugasemdir



