Aron Einar Gunnarsson var í byrjunarliði Al-Gharafa sem heimsótti Shabab Al-Ahli til Sameinuðu arabísku furstadæmanna í Meistaradeild Asíu í dag.
Aron Einar byrjaði á miðjunni en Al-Gharafa lenti tveimur mörkum undir í fyrri hálfleik. Andstæðingarnir í liði Shabab nýttu færin sín frábærlega í jöfnum leik.
Aron lék fyrstu 79 mínúturnar en liðsfélögum hans tókst ekki að minnka muninn, svo lokatölur urðu 2-0. Al-Gharafa er með 3 stig eftir 5 umferðir.
Þá voru afar óvænt úrslit sem áttu sér stað þegar sádi-arabíska stórveldið Al-Ahli tók á móti Al-Sharjah frá Furstadæmunum. Þetta var aðeins annar leikur Al-Sharjah eftir brottrekstur Milos Milojevic úr þjálfarastarfinu og var það heimamaðurinn Abdelmajeed Al-Zarooni sem stýrði Sharjah mönnum af hliðarlínunni.
Staðan var markalaus lengst af í mjög jöfnum leik þar sem Al-Ahli var mikið með boltann en tókst ekki að skapa góð færi gegn skipulögðum varnarmúr Al-Sharjah. Að lokum tókst Ousmane Camara að stela sigrinum fyrir gestina, svo lokatölur urðu 0-1.
Al-Sharjah er komið með 7 stig eftir 5 umferðir í Meistaradeildinni, en þetta er fyrsta tap Al-Ahli í keppninni. Stjörnum prýtt lið Al-Ahli er með 10 stig, en Riyad Mahrez, Enzo Millot og Roger Ibanez voru í byrjunarliðinu.
Merih Demiral, Franck Kessié, Ivan Toney og fleiri stjörnur sátu á bekknum þar sem Matthias Jaissle þjálfari er að reyna að forðast álagsmeiðsli.
Stórveldið Al-Ittihad mætti einnig til leiks í Meistaradeildina í dag og var Sergio Conceicao ekki að spara stóru byssurnar. Hann var með alla sína bestu menn í byrjunarliðinu en þeir réðu þrátt fyrir það ekki við Al-Duhail frá Katar.
Al-Duhail komst í fjögurra marka forystu áður en Karim Benzema tókst að minnka muninn með tvennu, svo lokatölur urðu 4-2. Auk Benzema mátti finna menn á borð við N'Golo Kanté, Moussa Diaby, Fabinho og Danilo Pereira í byrjunarliði Al-Ittihad.
Alsíringurinn efnilegi Adil Boulbina skoraði fyrstu þrjú mörk leiksins áður en Krzysztof Piatek setti fjórða markið. Luis Alberto átti stoðsendingaþrennu í sigurliði heimamanna og gaf Ítalinn Marco Verratti einnig stoðsendingu í sigrinum.
Al-Duhail er með 7 stig eftir þennan sigur, einu stigi meira en Al-Ittihad.
Að lokum vann íranska félagið Tractor á útivelli gegn Nasaf Qarshi í Úsbekistan. Tractor er með 11 stig eftir 5 umferðir.
Shabab Al-Ahli 2 - 0 Al-Gharafa
1-0 Kauan Santos ('9)
2-0 Guilherme ('28)
Al-Ahli 0 - 1 Al-Sharjah
0-1 Ousmane Camara ('81)
Al-Duhail 4 - 2 Al-Ittihad
1-0 Adil Boulbina ('5)
2-0 Adil Boulbina ('33)
3-0 Adil Boulbina ('53)
4-0 Krzysztof Piatek ('74)
4-1 Karim Benzema ('76)
4-2 Karim Benzema ('83)
Nasaf Qarshi 0 - 1 Tractor
0-1 Regi Lushkja ('17)
Athugasemdir




