Elísa Viðarsdóttir, fyrirliði Vals, er líklega á förum frá félaginu eftir tíu tímabil hjá félaginu. Samningur hennar rann út um miðjan mánuð. Í tilkynningu Vals fyrir rúmri viku síðan var sagt frá því að Elísa væri með samningstilboð á borðinu og félagið væri að bíða eftir svari frá henni.
Fótbolti.net ræddi við Elísu í dag.
Fótbolti.net ræddi við Elísu í dag.
„Staðan á mér er góð. Eftir að hafa nýtt fríið til þess að gera upp tímabilið sem er að baki og kúpla mig aðeins út, hef ég fengið tíma til að hugsa mjög vandlega um næsta skref."
„Ég hef tekið samtöl við Val, en eins og þær samningaviðræður blasa við mér eru þær einhliða og lítið við því að gera. Ég er farin að skoða aðra kosti, mér líður eins og það séu einhver ár eftir í skrokknum en ég ætla bara að vega og meta hvað kemur upp. Ég er tilbúin að skoða öll spennandi verkefni," segir Elísa sem er 34 ára.
Elísa talar um einhliða viðræður, hvernig þá?
„Ég átti gott samtal við þá þar sem þeir sýndu áhuga á að halda mér, en það var ekkert hægt að hagga samningnum sem þeir buðu."
„Ég er bara að skoða allt og ég held ég ætli í fyrsta skipti á ferlinum að taka ákvörðun út frá því hvað er best fyrir mig og hvernig ég vil enda síðustu árin í þessu. Ég hef átt mín bestu ár á ferlinum í Valstreyjunni, hef alið börnin mín upp á Hlíðarenda og kynnst ótrúlega mikið af frábæru fólki sem verður alltaf stór partur af mér og minni fjölskyldu. Fyrir það verð ég ævinlega þakklát."
Hún hefur verið orðuð við endurkomu til ÍBV. Hefur hún velt þeim möguleika fyrir sér?
„Að sjálfsögðu hefur maður velt þeim möguleika fyrir sér, ÍBV er mitt uppeldisfélag og ég ber sterkar taugar til félagsins. Ég hef ekki átt neitt formlegt samtal við Eyjamenn, en ég er viss um að dyrnar stæðu mér opnar ef það gæti gengið upp fjölskyldu og vinnunnar vegna."
Tímabilið hjá Val var talsvert öðruvísi en tímabilin þar á undan. Liðið tapaði fleiri leikjum en það vann í deildinni. Hvernig var þetta ár með Val?
„Þetta ár með Val hefur verið mjög erfitt. Á sama tíma hefur þetta verið ótrúlega lærdómsríkt. Eftir mörg ár af velgengni kemur í ljós hversu mikill íþróttamaður maður er þegar það gengur illa. Það er auðvelt að vera góður leiðtogi og blómstra í velgengni og því var þetta gríðarlega mikil reynsla fyrir mig og félagið í heild sinni. En nú er þetta fortíðin og við horfum til framtíðar með bros á vör."
Það varð mikil breyting hjá Val eftir tímabilið 2024, Pétur Pétursson og Adda hættu sem þjálfarar liðsins, samningi við markadrottninguna Berglindi Björgu var rift og Katie Cousins fór í Þrótt. Núna er reynsluboltinn Fanndís Friðriksdóttir líka farin frá Val ásamt Natöshu Anasi. Hvernig líður Elísu með breytta stefnu félagsins?
„Að breyta stefnu er svo sem ekkert sem ég get farið að gagnrýna, þetta er ákvörðun stjórnar og þeir telja þetta besta leiðin fyrir félagið eins og staðan er í dag. Það þarf endrum og eins og hrista til í leikmannahópnum og breyta áherslum til að halda áfram að þróast en það þarf að vanda sig og passa upp á kúltúrinn og það góða sem skapaði þessa miklu sigurhefð sem við náðum að byggja upp til margra ára."
„Ég sé mikið eftir þeim frábæru leikmönnum sem eru farnir annað, þetta eru stelpur sem hafa lagt líf og sál í verkefnið, gefa mikið af sér til félagsins, eru frábærir leikmenn og góðir leiðtogar fyrir yngri leikmenn," segir Elísa sem hefur unnið fjóra Íslandsmeistaratitla og tvo bikartitla með Val.
Hún á að baki 54 A-landsleiki og var hluti af landsliðinu sem fór á EM í Englandi 2022 eftir að hafa misst af EM 2017 vegna meiðsla.
Athugasemdir




