Arsenal og Chelsea hafa áhuga á Murillo - Liverpool undirbýr mettilboð í Neves - Man Utd vill halda Casemiro
   mán 24. nóvember 2025 20:13
Ívan Guðjón Baldursson
Heimild: Vísir 
Hareide með krabbamein í heila
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Åge Hareide fyrrum landsliðsþjálfari Íslands er með krabbamein í heila. Hann er 72 ára gamall og hefur krabbameinið alvarleg áhrif á heilsu hans.

Hann glímir við mikla skerðingu á hreyfi- og talgetu og er óvíst hvað framtíðin ber í skauti sér.

Åge Hareide stýrði Íslandi í eitt og hálft ár og var nálægt því að koma landsliðinu á EM. Ísland fór í umspil um laust sæti og tapaði þar úrslitaleik gegn Úkraínu eftir að hafa slegið Ísrael úr leik.

Íslenska landsliðsþjálfarastarfið er síðasta þjálfarastarf hans en hann hefur einnig þjálfað danska og sænska landsliðið á ferli sínum, auk ýmissa stórvelda frá Skandinavíu. Hann hefur unnið efstu deild í Svíþjóð, Noregi og Danmörku á ferlinum.

Ståle Solbakken, landsliðsþjálfari Noregs, greindi frá því í síðasta landsleikjahléi að Hareide væri að glíma við alvarleg veikindi og nú er komið í ljós hvers eðlis þau eru.

Hareide flaug til Ítalíu til að horfa á Norðmenn innsigla sæti sitt á lokamóti HM eftir magnaða undankeppni. Noregur rúllaði yfir Ítalíu bæði á heimavelli og útivelli og sigraði samtals 7-1 gegn þessari miklu fótboltaþjóð til að tryggja sig á HM.

Markmiðið er að Hareide fari með landsliðinu til Ameríku á næsta ári til að fylgjast með Norðmönnum úr návígi, en heilsan hans verður í fyrsta sæti.

Fjölskylda Hareide tók eftir því í sumar að eitthvað var að honum þegar hann tók að tala óskýrt og leiddi skoðun í ljós að hann var kominn með krabbamein í heila.

Fyrir þessa uppgötvun var Hareide að skoða að taka við þjálfun á landsliði Óman, en hann fór í sex vikna geislameðferð í staðinn sem lauk í september.
Athugasemdir
banner
banner