Malen, Maguire, Rashford, Greenwood, Yoro, Eriksen og fleiri góðir í slúðri dagsins
banner
   fös 29. maí 2020 20:38
Ívan Guðjón Baldursson
Salzburg vann austurríska bikarinn fyrir luktum dyrum
Mynd: Getty Images
Salzburg 5 - 0 Austria Lustenau
1-0 Dominik Szoboszlai ('20)
2-0 Dominik Stumberger ('21, sjálfsmark)
3-0 Noah Okafor ('53)
4-0 Majeed Ashimeru ('65)
5-0 Sekou Koita ('79)

Austurríska stórveldið RB Salzburg vann austurríska bikarinn auðveldlega með sigri á Austria Lustenau í kvöld.

Leikið var fyrir luktum dyrum á hlutlausum leikvangi. Það var aðeins eitt lið á vellinum og verðskuldaði Salzburg sigurinn fyllilega.

Dominik Szoboszlai gerði fyrsta mark leiksins og tvöfaldaðist forskot Salzburg þegar Dominik Stumberger gerði sjálfsmark mínútu síðar.

Í síðari hálfleik skoruðu Noah Okafor, Majeed Ashimeru og Sekou Koita til að tryggja 5-0 sigur.

Salzburg er ríkjandi meistari í Austurríki en missti tvo lykilmenn frá sér í janúar, þá Erling Braut Haaland sem fór til Dortmund og Takumi Minamino sem hélt til Liverpool.

Liðið vermir toppsæti austurrísku deildarinnar sem stendur, eftir að sex stig voru dregin af LASK Linz fyrir að stunda ólöglegar æfingar undanfarna mánuði þrátt fyrir að það væri bannað vegna Covid-19.

Þetta er annað árið í röð sem Salzburg vinnur austurríska bikarinn og í sjöunda sinn á síðustu níu árum.
Athugasemdir
banner