Amorim, Frank, Ten Hag, De Bruyne, Isak, Olise, Gyökeres og fleiri góðir í slúðurpakka dagsins
   fös 30. apríl 2021 11:15
Sæbjörn Þór Þórbergsson Steinke
„Hljóta allir að sjá hversu kjánalegar reglurnar eru"
Mynd: ÍR
Mynd: Raggi Óla
Mynd: ÍR
„Í raun og veru ekki kemur þetta ekki á óvart. Ég átti von á að okkur yrði spáð 5. Sæti. Nokkur lið í deildinni hafa farið mikinn í að styrkja sig í vetur og flest liðin sem fyrirfram eru álitin sterkari hafa verið með öflugan kjarna leikmanna sem þau hafa bætt við," sagði Arnar Hallsson, þjálfari ÍR, þegar hann var spurður út í viðbrögð við því að ÍR sé spáð 6. sæti í 2. deild í sumar.

„ Mér finnst þetta í raun rökrétt spá miðað við hvernig okkur gekk á síðasta tímabili og líka þegar horft er til niðurstöðu leikja okkar í Reykjavíkurmótinu. En ég veit líka hverjar okkar áherslur voru í Reykjavíkurmótinu og hversu hart mínir leikmenn hafa lagt að sér í vetur."

„Ég er sannfærður um að liðið muni gera mun betur en því er spáð. Það er okkar að skila vinnu vetrarins í formi frammistöðu sem mun leiða til jákvæðra úrslita í Íslandsmótinu. Mig hlakkar til að sjá leikmenn mína uppskera afrakstur vinnu sinnar."


Sjá einnig:
Spá þjálfara í 2. deildinni: 6. sæti

Hvernig líst þér á deildina í heild sinni?

„Ég held að hún verði jöfn og spennandi. Það eru mörg lið með öfluga leikmenn og góða þjálfara. Ég vona innilega að mótið geti spilast samkvæmt núverandi leikjadagskrá og ytri aðstæður hafi ekki áhrif á mótið. Þá vona ég að áhorfendur verði leyfðir því það hljóta allir að sjá hversu kjánalegar reglurnar eru."

„Fólk má vera á sýningum í lokuðum rýmum en má ekki sitja eða standa úti séu sætin ekki merkt á sama tíma er búin að vera útihátíð alla daga í rúman mánuð kringum gosstöðvarnar. Samhengið er nákvæmlega ekkert og það hefur verið pínlegt að fylgjast með íþróttahreyfingunni koma þeim skilaboðum áleiðis."


Hver eru markmið ÍR í sumar?

„Að njóta þess að æfa og keppa í fótbolta alla daga sem mun skila okkur framförum og stuðla að því að við vinnum 2. deildina 2021."

Er leikmannahópurinn klár eða á eftir að fá menn inn?

„Undanfarin ár hefur mikil vinna farið fram á bakvið tjöldin í uppbyggingu yngri flokka félagsins og þar hafa tiltölulega fáir menn lyft grettistaki. Ég sé marga leikmenn í yngri flokkunum sem munu gera atlögu að meistaraflokki félagins í sumar og á næstu árum."

„Hluti af þeirri stefnu sem við höfum markað okkur er að byggja upp kjarna liðsins innan frá. Við erum með öfluga leikmenn á 2.flokks aldri og fengum nokkuð marga unga leikmenn til liðs við okkur í vetur. Hópurinn er breiður og jafn. Við munum ekki bæta við okkur leikmanni nema til okkar vilji koma leikmaður sem klárlega bætir byrjunarliðið umtalsvert."


Er erfitt fyrir ÍR að horfa á grannana í Leikni í efstu deild og þið í 2.?

„Það er mér erfitt að ÍR skuli vera í 2.deild og það er mitt hlutverk að leggja mikið af mörkum til að breyta því. Að Leiknir sé í efstu deild er eitthvað sem ég hef enga stjórn á og velti ekki mikið fyrir mér. Leiknir er félag sem á mikið hrós skilið, yngri flokkar félagsins eru fámennir en samt tekst félaginu að skapa umgjörð sem mótar mjög frambærilega leikmenn. Fyrir þeirri vinnu ber ég virðingu."

„Sjálfboðaliðastarfið í kringum Leikni virðist mér vera öflugt og metnaðarfullt og fólkið í kringum félagið á mikið hrós skilið fyrir gott starf á síðustu 10-15 árum því það er sá tími sem hefur tekið að búa til þessa stefnu, umgjörð og gæði."

„Ég vil að sjálfsögðu taka fram úr Leikni innan sem utan vallar en það kostar vinnu margra í langan tíma. ÍR er loksins að verða félag sem hefur alla sína starfsemi á einum stað og því mun fylgja aukinn kraftur í öllum deildum. Við í knattspyrnudeildinni erum í uppbyggingarfasa og vonandi mun sú vinna skila því að þú munir spyrja Leiknismenn hvort ekki sé erfitt að vera eftirbátar ÍR-inga innan 5 ára,"
sagði Arnar.
Athugasemdir
banner
banner