Rashford yfirgefur Man Utd - Tottenham á eftir Alberti
   fös 30. október 2020 22:29
Sæbjörn Þór Þórbergsson Steinke
ÍBV riftir samningi við Víði - „Þessar fréttir komu mér á óvart og voru mér þyngri en tárum taki"
Lengjudeildin
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
ÍBV hefur rift samningi sínum við heimamanninn Víði Þorvarðarson. Þessu greinir hann fá í Facebook-færslu sem hann birti fyrr í kvöld.

Víðir er 28 ára gamall og lék sína fyrstu leiki í meistaraflokki með liði KFS sumarið 2009. Hann hélt í Stjörnuna fyrir tímabilið 2010 og var þar í tvö tímabil. Þá sneri hann heim til Eyja og lék með ÍBV í fjögur tímabil.

Hann lék með fylki sumarið 2016 og sumarið 2017, ásamt fyrri hluta sumarsins 2018, lék hann með Þrótti. Svo sneri hann aftur til Vestmannaeyja.

Víðir lék nítján leiki í Lengjudeildinni í sumar og skoraði tvö mörk. Í færslunni sem má lesa hér að neðan kemur fram að ákvörðunin komi honum á óvart.

Færsla Víðis
Áfram ÍBV! Alltaf allstaðar

Frá blautu barnsbeini hef ég verið stuðningsmaður ÍBV og lét mig dreyma um að spila fyrir félagið. Ég naut þess að spila í yngri flokkum félagsins uns ég fluttist til Garðabæjar til að fara í framhaldsskóla. Þar spilaði ég fyrir Stjörnuna en fann að það var ekki það sama og að spila fyrir uppeldisfélagið. Á þeim tíma lenti faðir minn í slysi og þegar í ljós kom hve alvarlegt það var ákvað ég að flytja heim því ég taldi að hann yrði að sjá mig spila á Hásteinsvelli í ÍBV treyjunni. Það tókst og það gekk meira að segja helvíti vel. Hann sá mig spila og skora mörk fyrir félagið sem hann unni svo heitt. Því miður náði hann ekki að sjá mig leiða liðið sem fyrirliði því það var ein af mínum stoltustu stundum. Eftir fráfall hans fluttist ég aftur uppá land til að hefja nám á háskólastigi.

Það var erfitt að slíta sig frá bandalaginu svo ég kom aftur til eyja og fórnaði námi og atvinnu fyrir félagið. Þegar liðið féll var ég staðráðinn í að gera allt til að koma liðinu aftur á þann stað sem það á heima. Eftir vonbrigða sumar sem var að líða hvarlaði ekki að mér að breyta því markmiði. Í dag var ég hins vegar kallaður á fund þar sem mér var tjáð að ákveðið hefur verið að segja upp samningi mínum þar sem stjórnarmenn og þjálfarar telja sig ekki hafa not fyrir krafta mína.

Þessar fréttir komu mér á óvart og voru mér þyngri en tárum taki.

Ég mun því vera partur af upprisu félagsins sem stuðningsmaður en ekki leikmaður. Þetta þýðir að skórnir eru farnir upp í hillu því eins og staðan er vil ég ekki spila fyrir annað félag en ÍBV. Vona ég þó einn daginn að fá tækifæri til að stíga aftur inn á Hásteinsvöll í hvítri ÍBV treyju og berjast fyrir bandalagið mitt sem ég elska svo heitt. Ljóst er að það gerist ekki á meðan sitjandi stjórn og þjálfarar eru við völdin.

Takk fyrir mig stuðningsmenn. Hlakka til að slást í hópinn með ykkur.

Ykkar leikjahæsti leikmaður síðustu 10 ára.
Víðir Þorvarðarson.
Færslan er birt með leyfi frá Víði.
Athugasemdir
banner
banner
banner