fös 13. ágúst 2010 17:42
Alexander Freyr Tamimi
Heimild: Sky 
Mario Balotelli í Manchester City (Staðfest)
„Super Mario
„Super Mario" Balotelli er genginn til liðs við Manchester City frá Inter.
Mynd: Getty Images
Manchester City hefur gengið frá kaupunum á framherjanum Mario Balotelli frá Inter, en framherjinn ungi skrifaði undir fimm ára samning við félagið.

Roberto Mancini knattspyrnustjóri City hefur verið mikill aðdáandi þessa efnilega leikmanns síðan þeir unnu saman hjá Inter og voru þessi félagsskipti búin að liggja í loftinu allt sumar.

Á tímabili virtust félagsskiptin ætla að fara út um þúfur en í morgun flaug Balotelli síðan til Manchesterborgar þar sem hann gekkst undir læknisskoðun og skrifaði undir samninginn í kjölfarið.

Kaupverðið á þessum unga Ítala er óuppgefið en það er talið vera í kringum 24 milljónir punda. Mun koma Balotelli auka enn á samkeppnina í liði City um framherjastöðuna.

„Ég held að Mario sé einn af bestu leikmönnum síns aldurs í Evrópu og ég er mjög ánægður með að ég skuli fá að vinna með honum á nýjan leik," sagði Mancini.

„Hans leikstíll mun henta úrvalsdeildinni og hann hefur mikið rými til að bæta sig vegna ungs aldurs."

„Hann er sterkur og spennandi leikmaður og stuðningsmenn City munu njóta þess að horfa á hann."


Mancini hefur styrkt lið Manchester City gríðarlega fyrir komandi tímabil en félagið hefur nú þegar fengið til sín þá David Silva, Yaya Touré, Aleksandar Kolarov og Jerome Boateng. Með þessa leikmenn innan herbúða sinna ætti City svo sannarlega að vera í titilbaráttu í ár en það verður að koma í ljós hvort að allt sé falt fyrir fé.

Fyrsti leikur City er gegn Tottenham í hádeginu á morgun en Balotelli mun ekki koma við sögu í þeim leik.
banner
banner
banner