Barca vill Dani Olmo - Crystal Palace að bjóða í Smith Rowe - Sergi Roberto vill enska boltann - Newcastle spyrst fyrir um Madueke
   fim 10. febrúar 2011 07:51
Sammarinn.com
Pistill: Pistlar á Fótbolta.net eru viðhorf höfundar og þurfa ekki endilega að endurspegla viðhorf vefsins eða ritstjórnar hans.
Víglínur Lundúna
Gunnar Birnir Jónsson skrifar
Sammarinn.com
Sammarinn.com
Kortið er fengið af spjallborði QPR stuðningsmanna. Eins og kemur fram á kortinu er þetta ekki heilagur sannleikur og á það eflaust eftir að breytast eitthvað.
Kortið er fengið af spjallborði QPR stuðningsmanna. Eins og kemur fram á kortinu er þetta ekki heilagur sannleikur og á það eflaust eftir að breytast eitthvað.
Mynd: Spjallborð QPR
Ólympíuleikvangurinn í London.
Ólympíuleikvangurinn í London.
Mynd: Getty Images
Tottenham og West Ham eru að berjast um að fá Ólympíuleikvanginn.
Tottenham og West Ham eru að berjast um að fá Ólympíuleikvanginn.
Mynd: Getty Images
Hvar eiga Lundúnaliðin aðsetur sín? Til hvaða hverfa sækja þau stuðning? Hvaða lið ‘ráða’ stærstu hverfunum? Hvar liggja víglínurnar? Afhverju ríkir svona mikil óánægja með að Tottenham fái nýja Ólympíuleikvanginn, afhverju ætti West Ham að fá hann frekar og afhverju eru þetta slæmar fréttir fyrir Leyton Orient?

Í London eiga aðsetur sín 15 lið úr 5 efstu deildum enskrar knattspyrnu. Sum þeirra hafa verið mjög áberandi í háa herrans tíð, önnur alið sinn aldur í skúmaskotum neðri deildanna. Í úrvalsdeildinni eru sem stendur 5 lið frá höfuðborginni og man undirritaður eftir einum 5 til viðbótar sem spilað hafa í efstu deild á síðustu 20 árum (ef telja má Wimbledon með).

Á Íslandi eru fjölmargir stuðningsmenn enskra liða og eru þeir ófáir sem halda með einu hinna mörgu liða frá London. Jafnvel þeir sem styðja lið annarstaðar frá eða eru hlutlausir vita eitt og annað um mörg liðanna og hafa jafnvel farið á leik(i) á einum eða fleiri fjölmargra knattspyrnuvalla borgarinnar.

Þótt margir íslenskir stuðningsmenn séu vel að sér um liðin og jafnvel vel kunnugir í Lundúnaborg er óvíst hvort margir hér á landi séu með staðsetningar liðanna innan borgarinnar alveg á hreinu. Hvað þá úr hvaða hverfum þau sækja stuðning sinn! Er það enda ekki alltaf alveg augljóst.

Stuðningur við knattspyrnulið vill, eins og margt annað, oft ganga í ættir, nálægð við aðra klúbba og velgengni þeirra ræður þá augljóslega einnig miklu um hversu vel þau eru studd. Það sem virðist þó engu að síður ráða mestu um það með hvaða liði hver og einn heldur er úr hvaða hverfi viðkomandi kemur eins og sjá má á þessu korti.

Athyglisvert er að sjá dreifingu stuðningsmanna Chelsea. Heimavöllur liðsins, Stamford Bridge, er eins og margir vita staðsettur innan marka Fulham hverfisins. Kjarni stuðnings liðsins kemur frá hinu aðliggjandi Chelsea hverfi en þar eru heimamenn aðþrengdir á alla kanta. Nálægð við önnur lið, einkum Fulham og QPR verður þess valdandi að þeirra sterkasta vígi er ekki stórt. Chelsea á hinsvegar sína aðdáendur á stóru en sundurleitu svæði og sækir liðið raunar stuðning frá norðri til suðurs um allan vesturhluta borgarinnar. Til samanburðar er áhugavert að sjá að hverfi Fulham er mjög skýrt afmarkaður reitur í kringum heimavöll þeirra Craven Cottage og mun minna en t.d. hjá nágrönnum þeirra í QPR.

Þegar horft er til norðurs blasir við aðeins önnur sjón. Norður-Lundúnaslagirnir eru iðulega meðal hápunkta hverrar leiktíðar enda eiga þar aðsetur sín tvö fornfræg félög, Arsenal og Tottenham Hotspur. Með aðeins nokkrum undantekningum virðast hverfi þeirra nokkuð vel skilgreind. Teygja þau sig hlið við hlið í mjóum geira frá miðju borgarinnar til endimarka hennar í norðri. Má leiða líkum að því að þessi skörpu skil séu jafnt orsök sem afleiðing þess hve rígurinn þarna á milli er mikill.

Það kann að koma einhverjum á óvart en það lið sem virðist eiga stærsta hverfið er West Ham United, en austurborgina norðan Thames eiga þeir nær óskipta. Dagenham & Redbridge á að vísu sína stuðningsmenn inni í miðju hverfi Hamranna en þar sem liðin hafa ekki beint verið í samkeppni í gegnum tíðina er ekki líklegt að þar séu mikil illindi. Má jafnvel búast við því að margir styðji bæði liðin.

Áberandi minni glans er á liðunum sem saman komin eru sunnan Thames. Ber þar helst að nefna Charlton Athletic, dáðadrengina í Millwall og Crystal Palace en liðin skipta suðurborginni nokkuð bróðurlega á milli sín.

En þá er spurningin. Afhverju er það svona mikið mál þótt Tottenham fengi leikvanginn, sem nú er verið að byggja fyrir Ólympíuleikana, til afnota að leikunum loknum?

Margir aðilar sóttust eftir því að nýta þennan glæsilega völl í framtíðinni. Var hann m.a. einn af þeim völlum sem leikið hefði verið á hefði HM 2018 farið til Englands en það þarf varla neitt að útskýra afhverju ekkert verður af því! Af ýmsum ástæðum öðrum féllu aðrir aðilar frá hugmyndum sínum og standa nú eftir tvö tilboð sem valið verður úr. West Ham á annað og Tottenham hitt.

Það eru margar ástæður fyrir andúð gagnvart tilboði Tottenham, meðal annars það að þeir hyggjast rífa megnið af leikvangnum og byggja nýjan í staðinn á grunninum! Ástæður þessa eru þær að leikvangurinn er ekki hannaður fyrir knattspyrnu, í kringum leikvöllinn er t.d. hið klassíska tabú, hlaupabraut. West Ham hefur á hinn bóginn samþykkt að breyta vellinum þannig að hann henti bæði fyrir knattspyrnu sem aðrar íþróttir, frjálsar, krikket o.fl. auk annarra atburða. West Ham er sem sagt tilbúið að sætta sig við einhver hugsanleg óþægindi og fá í staðinn nýjan og glæsilegan 60.000 manna völl. Borgarbúar fengju þá að njóta fjölbreyttari skemmtunar fyrir vikið.

Það sem svíður þó mest er staðsetning vallarins og erindi Tottenham þangað. Eins og sjá má á meðfylgjandi mynd er Ólympíuleikvangurinn staðsettur í miðju West Ham hverfinu, aðeins um 3,5 km frá Upton Park.

Skiljanlega er ekki líklegt að margir nágrannanna yrðu mjög ánægðir með stóra bláa hanann sem vænta má að myndi vaka yfir hverfinu. Verst út úr þessu færi samt líklega Leyton Orient. Klúbburinn, sem verður 130 ára á árinu, lýsti yfir áhuga á að taka yfir leikvanginn enda það lið sem staðsett er næst honum (u.þ.b. 2,7 km). Vegna smæðar félagsins gat þó ekki orðið af því. Hverfi Leyton Orient er eins og sést að ofan vel samlokað á milli hverfa Tottenham og West Ham. Fengi Tottenham heimavöll sunnan þess einnig, svo skammt frá heimavelli þeirra Brisbane Road, er óvíst hvaða framtíð biði klúbbsins.

Þá eru reyndar bæði The Den hjá Millwall og Emirates þeirra Arsenal manna nær Ólympíuleikvanginum en White Hart Lane sem er í rúmlega 8 km fjarlægð. Yrði af þessum flutingum væri Tottenham Hotspur því komið ansi langt frá rótum sínum í Tottenham. Þá mætti velta fyrir sér hversu mikið tilkall liðið hefði til nafnsins.

Fordæmi eru fyrir slíkum nafnabreytingum. Fyrir þá sem ekki vita hét Arsenal einu sinni Woolwich Arsenal eftir hverfinu þar sem það var staðsett. Woolwich er sunnan Thames og er nú Charlton Athletic hverfi en nálægt þar sem The Valley stendur nú spilaði liðið til ársins 1913 þegar það flutti í norðurbæinn. Eftir þann flutning þótti ekki lengur við hæfi að kenna sig við gamla hverfið og var nafnið stytt í Arsenal.

Þá er bara spurning hversu margir Tottenham stuðningsmenn myndu kannast við að halda með Austur-Lundúnaliðinu Hotspur frá Stratford?
banner
banner
banner