„Hann var bara skemmtilegur held ég. Fimm mörk frá okkur og fullkomlega sanngjarnt held ég, ef ég hugsa um þetta strax eftir á. Þannig að bara gaman að skora fimm mörk í síðasta heimaleiknum fyrir fólkið hérna, það var geggjað að sjá hversu margir voru á leiknum,'' sagði Hallgrímur Mar Steingrímsson, leikmaður KA og besti leikmaður neðri hluta Bestu-deildarinnar, eftir 5-1 sigur á ÍA í dag.
Lestu um leikinn: KA 5 - 1 ÍA
Skagamenn spiluðu eiginlega maður á mann pressu í dag. Hugsar leikinn leikmaður eins og Hallgrímur Mar sér ekki gott til glóðarinnar í svoleiðis aðstæðum?
„Já, það gerðist nokkrum sinnum í fyrri hálfleik þó að það hafi gerst minna í seinni. Maður fann þá einhverjar stöður úti á kantinum, þannig losarðu þessar stöður - þú þarft bara að vinna maður á mann einvígi. Það hefði mátt ganga upp oftar í seinni, en ég kvarta ekki þegar við vinnum 5-1!''
Hallgrímur gerði sér svo lítið fyrir og skoraði eitt af mörkum sumarsins þegar hann lyfti boltanum af eigin vallarhelmingi yfir Árna Marinó Einarsson í marki Skagamanna.
„Ég var búinn að hugsa um þetta fyrr í leiknum, að reyna að setja á hann. En svo bara lá boltinn mjög vel fyrir mig og ég sá að hann var aðeins framarlega. Ég lét bara vaða og ég smellhitti hann - þetta var fallegt,'' sagði Hallgrímur Mar um markið glæsilega.
Viðtalið má sjá í heild sinni í spilaranum hér að ofan.