„Mér finnst við svo sem vera með leikinn í okkar höndum allan tímann. Við erum að skapa okkur fullt af færum. Þetta er bara svekkjandi, þetta er bara á loka mínútunni," sagði Hrannar Snær Magnússon leikmaður Aftureldingar eftir dramatískt 1-1 jafntefli við Vestra þar sem Vestra menn skoruðu jöfnunarmarkið með síðasta sparki leiksins.
Lestu um leikinn: Afturelding 1 - 1 Vestri
Eftir að Afturelding komst yfir opnaðist leikurinn töluvert og Afturelding fékk nokkur mjög góð færi. Þeir nýttu þau ekki og fengu það síðan í bakið.
„Eftir að við komumst yfir þá stíga þeir náttúrulega ofar og eru að flengja mönnum þarna fram. Við komumst í fullt af góðum stöðum, bara ótrúlegt að við náðum ekki að setja eitt mark í viðbót," sagði Hrannar.
Örlög Aftureldingar eru ekki lengur í þeirra höndum, þeir þurfa að treysta á að Vestri og KR gera jafntefli, og að þeir vinni ÍA. Það er eina sviðsmyndin þar sem Afturelding heldur sér í deildinni.
„Leikurinn í dag sýnir að þetta er aldrei búið fyrr en þetta er búið. Þeir skora á loka mínútunni og jafna. Þetta er heldur ekki búið ennþá við þurfum að fara upp á Skaga og við ætlum að vinna þann leik. Svo bara verðum við að vona það besta," sagði Hrannar.
Viðtalið má sjá í heild sinni í spilaranum hér fyrir ofan.