Simons orðaður við Man Utd - Calafiori færist nær Arsenal - West Ham hefur áhuga á Tomori
   þri 17. janúar 2012 15:00
Sam Tillen
Pistill: Pistlar á Fótbolta.net eru viðhorf höfundar og þurfa ekki endilega að endurspegla viðhorf vefsins eða ritstjórnar hans.
Ekki dæma bókina eftir kápunni - Sérstaklega ekki John Terry
Sam Tillen
Sam Tillen
John Terry fyrirliði Chelsea og enska landsliðsins.
John Terry fyrirliði Chelsea og enska landsliðsins.
Mynd: Getty Images
Sam Tillen.
Sam Tillen.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Terry er mikið í fréttunum.
Terry er mikið í fréttunum.
Mynd: Getty Images
Marcel Desailly.
Marcel Desailly.
Mynd: Getty Images
Sem fótboltaaðdáendur þá fáum við einungis tækifæri til að dæma leikmenn persónulega á því sem við lesum í dagblöðum og öðrum fjölmiðlum eða á því hvernig þeir haga sér inni á fótboltavellinum. Það er eðlilegt að tilfinning okkar byggist á þessu því við þekkjum þá ekki persónulega. Þetta getur því miður verið mjög villandi.

Stundum eru blaðamennirnir og fólkið sem býr til fréttirnar með áróður. Þau gætu hafa lent áður í rifrildi við leikmanninn, verið vinir fyrrum eiginkonu hans eða átt í góðu sambandi við erkifjendur félagsins sem hann spilar með. Þegar leikmaður stígur á völlinn síðdegis á laugardagi fylgist öll heimsbyggðin með honum spila undir pressu fyrir sínu lífsviðurværi. Leikmenn, þjálfarar og stuðningsmenn hafa beðið spenntir eftir þessari stund. Það er óeðlilegt að dæma hegðun manns við svona aðstæður. Heldur þú að þegar Gary Neville vinnur dóttur sína í feluleik heima hjá sér þá snúi hann sér að konunni sinni og öskri ‘Come on!!!!’ á meðan hann heldur í treyjuna sína eins og hann gerði fyrir framan stuðningsmenn Liverpool á Old Trafford? Ég held ekki.

Þegar þú ert í kringum æfingasvæðið þá færðu að sjá leikmennina í réttara ljósi. Sumir af þeim koma þér á óvart og heilla þig en aðrir valda miklum vonbrigðum. Þetta væri líka tilfellið ef þú myndir hitta einhvern í daglegu lífi. Það að fótboltamenn eru frægir gerir þá ekki öðruvísi. Þeir hafa bara hæfileika á ákveðnu sviði líkt og skurðlæknar eða arkitektar. Sumir af þeim eru gott fólk, aðrir ekki.

Árið 2002 var ég 17 ára og hafði verið meiddur í 8 mánuði. Ég þurfti vanalega að æfa tvöfalt (á morgnanna og síðdegis) til að komast í form. Ég æfði með ýmsum leikmönnum í endurhæfingunni og þar sem John Terry var að glíma við hnémeiðsli æfði ég meðal annars með honum. Við æfðum saman í 3 eða 4 vikur áður en hann var farinn að spila aftur og sanna sig sem miðvörður númer eitt í aðalliðinu. Eftir þetta fylgdist John alltaf með gangi mála hjá mér og hann óskaði mér góðs gengis fyrir fyrsta leikinn minn eftir 11 mánaða endurhæfingu. Því miður varð leikurinn þennan laugardagsmorgun til þess að ég sleit krossband og varð að fara í aðgerð 3 dögum síðar. Þegar sjúkraþjálfarinn kom í heimsókn heim til mín sagði hann að “JT” hefði spurt hvort ég mætti fara í frí og hann hafði spurt Graeme (Le Saux) hvort að það mætti nota sektarsjóðinn hjá aðalliðinu til að borga fyrir fríið.’
Ég trúði þessu ekki.

Eftir 10 daga heima fór ég á æfingavöllinn og John var þar. Hann spurði hvernig ég hefði það og sagði síðan ‘Ég og Graeme höfum gengið frá því að þú farir í frí, þú getur farið hvert sem þú vilt, með vini þínum eða bróður þínum, þú átt eitthvað gott skilið. Skoðaðu bara hvert þú vilt fara. Farðu hvert sem þú vilt, þetta eru ekki þínir peningar! Láttu okkur bara vita hversu mikið þetta er og við munum bóka ferðina.’

Ég vissi ekki hvað ég gat sagt annað en takk fyrir. Ég talaði við unglingaliðs og varaliðsþjálfarana og þeir sögðu að þetta væri það besta í stöðunni fyrir mig til að reyna að gleyma vonbrigðunum. Varaliðsþjálfarinn minn sagði að ég væri ennþá með ,,spítala lit” því ég var hvítur eins og draugur og þurfti á lit að halda. Ég missti svolítið af blóði í aðgerðinni og liturinn var ekki kominn aftur í andlitið á mér.

Móðir mín var líka nýbúin í aðgerð svo hún gat fengið smá frí í vinnunni. Þess vegna vildi ég taka hana með mér. Það var október svo ég þurfti að ‘finna einhvern heitan stað’ eins og John hafði sagt mér að gera. Eini staðurinn þar sem var nálægt því að vera heitur í Evrópu var á Suður-Spán og jafnvel þó að þetta væru ekki mínir peningar þá vildi ég ekki láta líta út fyrir að ég væri að notfæra mér þetta tilboð. Svo ég fór á æfingu daginn eftir og sagði við John, ‘Er í lagi ef ég og mamma förum til Sevilla yfir helgina?’ Svar hans var, ‘ Come on Tills! Þú getur farið frítt hvert sem þú vilt, af hverju viltu fara þangað? Það verður ekki einu sinni heitt. Skoðaðu þetta aftur. Farðu í Karíbahafið eða eitthvað, þú getur setið á ströndinni þar án þess að hafa áhyggjur af því hvað það kostar mikið, við munum ganga frá því.’

Ég fór og skoðaði aftur og fann gott tilboð til Tobago. Ég talaði við sjúkraþjálfarinn minn í nokkra daga og hann sagði að þetta væri í lagi ‘talaðu bara við ‘JT”. Mér leið ennnþá illa yfir að vera að eyða peningum frá einhverjum öðrum, ég hafði ekki gert það áður. Ég var því stressaður þegar ég talaði við John og sagði honum frá planinu sem ég hafði í huga.

‘Ekkert vandamál, gott val. Gefðu mér upplýsingar og ég mun borga fyrir þetta.’
Hann gekk frá öllu og daginn áður en ég átti að fara þá kallaði hann mig inn í búningsklefa. ‘Tills , þú ert að fara á morgun er það ekki?’ Hann fór í jakkavasann og tók upp 100 pund. ‘Hérna, peningur sem þú getur eytt,’ Ég sagði að ég gæti ekki þegið þetta. Hann spurði mig aftur. Ég sagði takk en nei takk. Hann stóð síðan upp og kom í veg fyrir að ég gæti farið út og sagði ‘Þú ert ekki að fara neitt fyrr en þú tekur við þessu!’
Ég átti engra kosta völ.

Þannig að ég og elskuleg móðir mín fórum í frí til Tobago þar sem allt var innifalið. Þetta var stórbrotið, sólarstrendur, fallegur sjórinn, þetta var algjörlega fullkomið. Mér hafði gengið vel í endurhæfingunni áður en ég fór svo ég fékk leyfi til að taka því því rólega þarna og ég gerði það svo sannarlega.

Þegar ég kom til baka var ég endurnærður og það er hluta til því að þakka að ég var mættur aftur í slaginn 6 mánuðum eftir aðgerðina mína. Í endurkomu minni (í unglingaliðinu) mættum við Crystal Palace á æfingavellinum okkar. Aðalliðið átti ekki að æfa fyrr en 3 daginn en okkar leikur var klukkan 10. John mætti 5 tímum fyrr til að horfa á mig. Hann kom til að athuga hvort ég myndi komast í gegnum leikinn eftir það sem gerðist síðast. Hann þurfti ekki að gera það, en hann gerði það.

Þegar bróðir minn Joe var þarna þá borgaði hann (John) ökutíma fyrir alla í unglingaliðinu því að hann vissi að það var dýrt þegar þú fékkst einungis 80 pund á viku sem ‘nemi’. Þú þurftir bara að segja honum hversu mikið þú þurftir og ávísunin var klár daginn eftir. Á þeim tíma þegar leikmennirnir í unglingaliðinu voru í að hreinsa skóna þá vildu allir fá einn af ‘hákörlunum’, John, Frank Lampard, Jody Morris eða sjálfan Eið Smára því að þeir voru gjafmildastir þegar kom að hinum hefðbundna ‘jólabónus’. Sumir leikmenn gáfu ekkert fyrir það að láta hreinsa skóna sína í 6 mánuði. Hann (John) borgaði meira segja sektir fyrir ungu strákana ef honum fannst vera farið illa með þá. Auðvitað var þeim sagt að segja ekki sálu frá því.

John hefur aldrei gleymt því hvernig það er að vera leikmaður í unglingaliðinu og hann er hinn fullkomni fyrirliði. Hann var alltaf opinn ef þú vildir tala við hann. Hann spurði alltaf hvernig gengi hjá unglinga og varaliðinu. Ef hann heyrði að þú hefðir spilað vel þá óskaði hann þér til hamingju og hvatti þig áfram. Hann hafði raunverulegan áhuga. Hann gleymdi aldrei ungu leikmönnunum. Hann fylgdist alltaf með þeim og með mér. Til að mynda bauð hann mér þjónustu umboðsmanns og ég samdi á endanum við hann. Þegar að ungir leikmenn ferðuðust með aðalliðinu í leiki þá passaði hann upp á að þeir myndu fá bónusa, það breytir mjög miklu í launagreiðslum fyrir unga leikmenn. Hann hjálpaði þeim að aðlagast og bauð þá velkomna í erfiðu umhverfi. Á vellinum og æfingavellinum var hann frábær, hann var með hjarta eins og ljón, henti sér fyrir skot, fljúgandi skó, allt saman. Hann æfði eftir æfingar, gerði alltaf aukalega. Við litum upp til hans.

Þetta voru ekki bara ungu leikmennirnir heldur. Það eru endlausar sögur til af góðmennsku og örlæti hans, sögur sem fóru aldrei af æfingasvæðinu. Ein þeirra stendur upp úr. Við vorum með gamlan nuddara sem var kallaðiur Al og bíllinn hans hafði bilað. Hann sagðist þurfa að hætta að mæta á æfingar því að það væri erfitt fyrir mann á hans aldri að nota almenningssamgöngur. Einn daginn eftir æfingu tók John hann út á bílastæði og sagði honum að opna augun. Fyrir framan hann var glænýr bill. John hafði fengið alla leikmennina til að gefa smá pening til að kaupa hann. Greyið gamli maðurinn byrjaði að gráta.
Þetta gerðist allt á undan Abramovich og áður en John varð stórstjarna og fór að þéna háar upphæðir.

Á síðasta ári var Al alvarlega veikur á spítala. John komst að þessu og kom sér strax í samband við hann. Al var upp með sér að heyra frá honum og konan hans var einnig ánægð með að John tók sér tíma til að hugsa um hann. Hann kom reglulega í heimsókn þar til að Al lét lífið.
John mætti í jarðarförina.

Marcel Desailly, sem var fyrirliði áður, gerði ekkert af þessu. Honum hefði ekki getað verið meira sama um ungu leikmennina eða nokkurn annan hjá félaginu í rauninni. Sem leikmaður var hann óaðfinnanlegur en sem fyrirliði þá gerði hann ekkert og var ekki nálægt því sem John er. Á fyrsta og öðru ári í unglingaliðinu þurftir þú að fá áritaðar treyjur hjá aðalliðinu og þær voru síðan sendar til stuðningsmanna, á uppboð eða í góðgerðarmál. Við röðuðum okkur upp á ganginum fyrir æfingar þegar að aðalliðsmennirnir komu og þeir árituðu treyjurnar. Þegar herra Desailly kom þóttist hann vanalega vera í símanum svo hann þyrfti ekki að gera þetta. Við vorum þarna ‘Marcel, uuuuummm, Marcel, gætir þú vinsamlegast…..’ síðan var hann farinn.
Vonbrigði.

Sumir leikmenn valda þér miklum vonbrigðum þegar þú hittir þá persónulega. Þeir gera það líka í daglega lífinu. John hefur auðvitað lent í nokkrum vandamálum utan vallar sem hefur verið fjallað mikið um en ég mun alltaf muna hvernig hann meðhöndlaði mig sem ungling. Enginn annar hefði gert þetta eða hugsað um það. Hann er klárlega enginn dýrlingur en það er ástæða fyrir því að stuðningsmenn Chelsea, leikmenn og starfsfólk telja að hann sé leiðtogi.

Ég bið ykkur því ekki að líkja því sama hvernig leikmenn eru innan vallar við það hvernig þeir eru sem manneskjur.
banner
banner
banner
banner