Gallagher á lán til Man Utd? - Villa hefur áhuga á Johnson - Tottenham hefur hætt við að reyna að fá Semenyo
   þri 23. desember 2025 17:18
Sæbjörn Þór Þórbergsson Steinke
Heimild: Gróttublaðið 
Langmarkahæsti maður Gróttu kveður sviðið - „Þótti mjög vænt um þetta augnablik"
Mynd: Fótbolti.net - Eyjólfur Garðarsson
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mynd: Fótbolti.net - Eyjólfur Garðarsson
Mynd: Fótbolti.net - Eyjólfur Garðarsson
Pétur Theodór Árnason hefur lagt skóna á hilluna. Hann kveður sviðið sem langmarkahæsti og næst leikjahæsti leikmaður í sögu Gróttu. Hann lauk ferlinum hjá félaginu eftir að hafa spilað með venslaliðinu fyrri hluta tímabilsins 2025. Hann lék sex leiki og skoraði eitt mark með Gróttu á lokakaflanum. Grótta endaði í 2. sæti 2. deildar og komst því upp í Lengjudeildina.

Pétur er í viðtali í Jólablaði Gróttu sem nálgast má hér, en blaðið er gefið út fimmtánda árið í röð.

Hann er þrítugur og lék sinn fyrsta leik í meistaraflokki sextán ára gamall. Á ferlinum spilaði hann alls 200 leiki í deild og bikar fyrir Gróttu, Breiðablik og Kríu, en hann varð Íslandsmeistari með Blikum 2022. Pétur skoraði alls 79 mörk fyrir Gróttu, næstum tvöfalt fleiri mörk en næstu menn á eftir.

„Það var ekki fyrr en í 3. flokki sem ég byrjaði að sýna einhver merki um að ég gæti orðið góður. Siggi Helga (Sigurður Örn Helgason) hafði mikla trú á mér og ég held að hvatningin frá honum hafi ýtt við mér á jákvæðan hátt,“ segir Pétur m.a. í viðtalinu.

Pétur skoraði fjögur mörk í ellefu leikjum með Gróttu í 2. deild sumarið 2018 eftir að hafa leikið með Kríu fyrri hluta sumars. Sumarið 2019 endaði hann svo sem markakóngur Lengjudeildarinnar þegar Grótta kom öllum á óvart og vann deildina.

„Það var ótrúlegt að taka þátt í þessu ævintýri. Þarna var kjarninn í liðinu orðinn mjög sterkur og menn voru tilbúnir til að vaða eld og brennistein fyrir félagið. Margir af strákunum sem ég spilaði með á þessum árum eru með mínum bestu vinum í dag," segir Pétur sem skoraði fimmtán mörk í deildinni sumarið 2019.

Grótta féll úr efstu deild 2020 og sumarið 2021 skoraði Pétur aftur mjög mikið í næstefstu deild, 23 mörk í þetta skiptið. Hann var í kjölfarið keyptur í Breiðablik þar sem Óskar Hrafn Þorvaldsson og Halldór Árnason, fyrrum þjálfarar Gróttu, voru við stýrið. Pétur varð fyrir því óláni snemma eftir komuna til Breiðabliks að slíta krossband í þriðja sinn á ferlinum.

„Þetta var mikið áfall. Það var svo langt liðið frá síðustu meiðslum að ég var ekkert að pæla í því að þetta gæti gerst aftur. Hélt bara að ég væri búinn með þennan pakka. Svo er ég að pressa varnarmann sem tekur stefnubreytingu og ég með – festi þá takkana í grasinu og eitthvað gefur sig."

Pétur var því meiddur nánast allan tímann sinn hjá Blikum. Hann náði að koma við sögu í lokaumferðinni 2022 og fagnaði Íslandsmeistaratitlinum með liðinu.

„Þetta var frábær hópur og í Breiðablik eignaðist ég góða vini. Stemningin í klefanum var auðvitað sérstaklega góð þar sem liðinu gekk svo vel."

Sumarið 2023 lék Pétur á láni með Gróttu, skoraði sex mörk í níu deildarleikjum en hann var með rifinn liðþófa og spilaði ekki seinni hluta mótsins. „Þá vissi ég innst inni að það væri lítið eftir af ferlinum og ég myndi aldrei ná að stimpla mig inn hjá Breiðablik."

Pétur kveður takkaskóna með Gróttu í næstefstu deild.

„Rúnar Páll var búinn að vera í góðu sambandi við mig og mig langaði að leggja mitt af mörkum við að koma Gróttu aftur upp í Lengjudeildina eftir fallið 2024. Ég fékk því félagaskipti yfir í Gróttu í sumarglugganum og kom vonandi með eitthvað að borðinu á lokasprettinum. Í það minnsta er ég mjög sáttur með að kveðja fótboltann með þessum hætti. Liðið mitt aftur komið á réttan stað og ég náði að spila í Gróttutreyjunni og fá strákinn minn í fangið beint eftir leik. Þetta hljómar kannski skringilega þar sem hann mun aldrei muna eftir þessu en mér þótti mjög vænt um þetta augnablik."

En er hann bitur eða sár út í hnémeiðslin?

„Maður hugsar stundum um þetta – hvert hefði ég náð með betri hné og allt það? En það eru samt ómetanlegar minningar sem standa upp úr og þakklæti fyrir öll árin í boltanum," segir Pétur sem vonar að einhver muni slá markametið hans með Gróttu einn daginn. Viðtalið í heild sinni má nálgast í Gróttublaðinu.

Í Gróttublaðinu er fjallað um liðið ár í knattspyrnunni hjá Gróttu í máli og myndum. Í blaðinu má ásamt viðtalinu við Pétur finna viðtöl við Orra Stein Óskarsson landsliðsfyrirliða, Rebekku Sif Brynjarsdóttur leikmann FCN og Gróttufólk sem er að gera það gott víða.
Athugasemdir
banner
banner