Zirkzee, Yoro og Branthwaite orðaðir við Man Utd - Arsenal mun framkvæma læknisfræðilegt mat á Neto
   þri 10. júní 2014 18:20
Þórður Már Sigfússon
Viðar Örn arftaki Alfreðs hjá Heerenveen?
Viðar Örn Kjartansson.
Viðar Örn Kjartansson.
Mynd: Kenneth Myhre - Kennethmyhre.net
Samkvæmt áreiðanlegum heimildum Fótbolti.net er Viðar Örn Kjartansson á óskalista hollenska úrvalsdeildarliðsins Heerenveen en aðalnjósnari félagsins fylgdist með honum skora tvennu fyrir Valerenga gegn Álasundi í norsku úrvalsdeildinni í gær.

Viðar hefur farið á kostum á keppnistímabilinu og hafa varnir norskra liða mátt sín lítils gegn honum og er hann markahæstur í deildinni með 13 mörk í 12 leikjum það sem af er leiktíðinni.

Forráðamenn Heerenveen líta því á Viðar sem vænlegan kost til að taka við af Alfreð Finnbogasyni sem hefur verið óstöðvandi í framlínu liðsins undanfarin tvö ár en hann mun yfirgefa félagið í sumar.

Alls eru mörkin hjá Viðari orðin 19 í 15 leikjum í öllum keppnum og er ljóst að dvöl hans verður stutt í Osló fari sem horfir en auk Heerenveen eru lið á Englandi með augastað á landsliðsframherjanum nýbakaða.

Kjetil Rekdal, þjálfari Valerenga, segir litlar líkur vera á því að Viðar verði seldur í bráð nema til komi tilboð sem ekki verði hægt að hafna.

,,Það er klárt að ef við fáum mjög hátt tilboð þá mun hann fara. Ronaldo fór frá United til Real Madrid, þannig að það er allt mögulegt í fótbolta," sagði Rekdal í samtali við Dagbladet í gær.

Norski umboðsmaðurinn Stig Lillejord sagði við norska fjölmiðla í gær að markaðsvirði Viðars væri nú á bilinu 300 - 450 milljónir íslenskra króna en félagið keypti hann fyrir hálfu ári síðan á rúmar 20 milljónir króna og halda norskir knattspyrnuspekingar því nú fram að kaupin á Viðari séu þau bestu sem gerð hafa verið í sögu norsku úrvalsdeildarinnar.
Athugasemdir
banner
banner
banner