Musiala efstur á blaði Man City - Sóknarmenn orðaðir við Arsenal - Colwill orðaður við Liverpool og PSG
   sun 12. desember 2004 09:00
Arjen Robben - Chelsea (13)
Við hér á Fótbolta.net stóðum fyrir kosningu á besta fótboltamanni heims í nóvembermánuði og höldum nú áfram að telja niður þá 24 efstu sem fengu flest atkvæði. Á aðfangadag jóla verður síðan besti leikmaður heims tilkynntur. Á hverjum degi kynnum við einn leikmann með pistli og í dag er það sá sem varð númer 13 í valinu:


13. Arjen Robben

Arjen Robben hefur komið með eitthvað sérstakt inn í lið Chelsea á þessu tímabili. Fæddur þann 23. janúar á því herrans ári 1984 gerir Robben aðeins tvítugan að aldri en hann hefur þegar stimplað sig inn sem einn af bestu leikmönnum heims.

Hann byrjaði ferilinn sem patti hjá VV Bedum sem var liðið í heimabænum hans. Hann sýndi strax hvers megnugur hann var og hann var fljótur að vekja á sér athygli. FC Groningen keypti hann árið 2000 þegar hann var aðeins 16 ára gamall.

Robben var alltaf ákveðinn í að standa sig í skólanum ef svo vildi til að hann meiddist svo illa að það myndi binda endi á ferilinn hans. Hann sótti skólann af mikilli ákefð og útskrifaðist með góðar einkunnir.
Hann spilaði sinn fyrsta leik fyrir liðið í desember sama ár þegar hann var maður leiksins í 1-0 sigri á Feyenoord. Snilli hans með boltann á kantinum var ógnvænleg og hollenskir fjölmiðlar héldu vart vatni yfir drengnum sem var samkvæmt þeim, bjartasta vonin í hollenska boltanum í áraraðir.

Það er skemmst frá því að segja að Robben var valinn maður tímabilsins hjá Gröningen, ótrúlegur árangur hjá 17 ára strák. Sumarið eftir þetta tímabil var það PSV Eindhoven sem keypti hann fyrir 2,6 milljónir punda, en lánaði svo aftur til Gröningen til að öðlast meiri reynslu.
Á fyrra tímabilinu með Gröningen skoraði hann tvö mörk í 18 leikjum. Hann lagði upp mikið af mörkum og stóg sig mjög vel. Á því næsta lék hann 28 leiki og þá setti hann sex mörk en hann lagði líka upp helmingi fleiri mörk en á tímabilinu þar á undan.

Hann fór svo til PSV og þar fóru hlutirnir að gerast. Á sínu fyrsta tímabili á Philips Stadium var hann kjörinn besti ungi leikmaður Hollands! Hann spilaði alla leiki nema einn og skoraði 12 mörk. PSV varð Hollandsmeistari á tímabilinu og Robben, þá 19 ára, var einn af driffjöðrum liðsins.

Á næsta tímabili, sem reyndist vera hans síðasta í Hollandi í bili, lék hann aðeins 23 leiki og skoraði 5 mörk. Eins og kom fram fyrir örfáum dögum þá fór Robben í aðgerð vegna krabbameins í eista. Hann lék út febrúarmánuð en síðan ekki nema í 17. mínútur til viðbótar á tímabilinu.
Landsliðsferill Robben hófst í apríl árið 2003 þegar hann kom inná fyrir Marc Overmars í 1-1 jafnteflisleik gegn Portúgal. Hann hafði reyndar getið sér gott orð með u-21 árs liði Hollands.

Fyrsti keppnisleikur hans var gegn Austurríki þegar Holland sigraði en hann skoraði sitt fyrsta landsliðsmark gegn Moldóvum. Hann stóð sig mjög vel og vann sér fast sæti í byrjunarliðinu á Evrópumótinu í sumar. Í úrslitaleik riðilsins mætti Holland svo Tékkum.

Í leiknum var Robben besti maður vallarins en hann lagði upp bæði mörkin sem Hollendingar skoruðu. Hann var tekinn útaf á 60. mínútu en áhorfendur búuðu á Dick Advocaat þjálfara. Leikurinn endaði 3-2 fyrir Tékka. Leikurinn var sá besti í mótinu, og nánast allir eru sammála um það. Sóknarknattspyrna af bestu gerð í 90. mínútur og fimm mörk.
Robben svaraði Advocaat með því að spila frábærlega gegn Lettum og Svíum en hann skoraði úr vítinu sínu í vítaspyrnukeppninni í 8-liða úrslitunum gegn þeim sænsku. Þeir töpuðu svo fyrir heimamönnum í Portúgal í undanúrslitunum.

Þann 13. desember árið 2003 fékk PSV fyrirspurn um Robben. Hún kom frá Manchester United sem hafði mikinn áhuga á að kaupa leikmanninn. Í byrjun árs 2004 fór hann til Englands þar sem hann skoðaði aðstæður hjá United. Gallinn á gjöf Njarðar var sú að það gleymdist að láta PSV vita af því að hann færi í heimsóknina til Englands!

Allt varð brjálað og Sir Alex Ferguson var ásakaður um að hefja viðræður við hann án leyfis frá PSV. Allt féll þó í ljúfa löð en samningaviðræður við United gengu illa. Chelsea fóru ghns vegar að spyrjast fyrir um Robben og var talið að United og Chelsea myndu slást um hann.

Sú varð raunin og að lokum gekk hann til liðs við Chelsea þann 2. mars. Kaupverðið var um 12 milljónir punda og voru PSV menn mjög ánægðir með þann pening. Hann skrifaði undir fimm ára samning og fór til Chelsea eftir Evrópumótið. Sir Alex varð fokvondur við það að missa af Robben sem hann taldi næsta víst að gengi til liðs við félagið.
Peter Kenyon stjórnaformaður Chelsea hafði þetta að segja um Robben: "Arjen er heimsklassa leikmaður sem verður mikilvægur fyrir félagið í mörg ár. Fyrir strák á hans aldri sýnir hann mikinn þroska og andlegan styrk auk náttúrulegu knattspyrnuhæfileika hans."

Robben meiddist í Bandaríkjunum þegar Chelsea voru í æfingaferð þar í landi. Það var Olivier Dacourt sem braut á honum og hann gat ekki spilað fyrr en þann 23. október. Þá kom hann inn á sem varamaður en hefur síðan verið fastamaður í byrjunarliðinu.

Robben hefur spilað fyrir aftan framherjann, sem oftast er Eiður Smári, ásamt Damien Duff í útfærslu af 4-3-3 leikkerfinu. Hann hefur staðið sig frábærlega og var valin besti leikmaður nóvembermánaðar í úrvalsdeildinni.

Þegar þetta er skrifað hefur Robben leikið 7 leiki fyrir Chelsea og skorað 3 mörk. Hann er samt sem áður þegar búinn að festa sig í sessi sem einn allra besti leikmaðurinn í úrvalsdeildinni og verður spennandi að fylgjast með því hvernig honum vegnar á ferli sínum á Englandi.

Sjá einnig:
Nr. 14: Sol Campbell (Arsenal)
Nr. 15: Patrick Vieira (Arsenal)
Nr. 16: Alessandro Nesta (AC Milan)
Nr. 17: Wayne Rooney (Manchester United)
Nr. 18: Paolo Maldini (AC Milan)
Nr. 19: David Beckham (Real Madrid)
Nr. 20: John Terry (Chelsea)
Nr. 21: Cristiano Ronaldo (Manchester United)
Nr. 22: Edgar Davids (Inter Milan)
Nr. 23: Kaká (AC Milan)
Nr. 24: Michael Owen (Real Madrid)

Athugasemdir
banner
banner