Jesus gæti farið frá Arsenal - Möguleg stjóraskipti hjá Man Utd og Bayern - Dortmund vill halda Sancho
   fös 29. júní 2018 09:30
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Daði Rafns tekur stöðuna - Hvaða lið fara í undanúrslit?
8-liða úrslitin í Mjólkurbikar kvenna hefjast í kvöld
Daði Rafnsson (hér til hægri)
Daði Rafnsson (hér til hægri)
Mynd: Fótbolti.net - Tomasz Kolodziejski
Daði telur að Fylkir muni ná í óvænt úrslit.
Daði telur að Fylkir muni ná í óvænt úrslit.
Mynd: Fótbolti.net - Einar Ásgeirsson
Þórdís Hrönn mun stýra fagnaðarlátunum fyrir Stjörnuna að mati Daða.
Þórdís Hrönn mun stýra fagnaðarlátunum fyrir Stjörnuna að mati Daða.
Mynd: Fótbolti.net - Tomasz Kolodziejski
Elín Metta er í góðum gír og skorar og skorar þessa daganna.
Elín Metta er í góðum gír og skorar og skorar þessa daganna.
Mynd: Fótbolti.net - Tomasz Kolodziejski
Í kvöld hefjast 8-liða úrslitin í Mjólkurbikar kvenna. Spenna er farin að myndast í keppninni.

Leikirnir í 8-liða úrslitunum eru athyglisverðir; tveir úrvalsdeildarslagir, í hinum tveimur leikjunum mæta Pepsi-deildarlið liðum í Inkasso-deildinni.

Daði Rafnsson, sparkspekingur mikill og fyrrum aðstoðarþjálfari Jiangsu Suning í Kína, skoðar 8-liða úrslitin fyrir okkur og spáir þar í spilin. Hvaða lið komast í undanúrslit?

Fylkir - ÍBV (klukkan 17:30 í dag)
Líklega áhugaverðasta viðureign 8-liða úrslitanna. Fylkir og Keflavík eru sterkustu liðin í Inkasso-deildinni og ég hef trú á að Kjartan Stefánsson eigi eftir að rífa þær appelsínugulu upp og koma þeim vel fyrir í Pepsi-deildinni. Höfum það á hreinu að enn er mikill gæðamunur milli úrvalsdeildar og þeirrar fyrstu og á pappír er ÍBV með 3-4 leikmenn sem væru afgerandi í Fylkisliðinu, Cloe, Kristínu Ernu, Shameeku og Sigríði Láru.

Það gæti samt leynst bikarrómantík í Lautinni. Annað liðið virðist vera meiri liðsheild á þessari stundu. Stemningin fleytir Fylki inn í undanúrslitin, jafnvel eftir framlengingu og vítaspyrnukeppni þar sem Þórdís Edda, markvörður Fylkis, ætlar að vera fyrir tveimur boltum.

Spá Daða: 1-1 (5-3 fyrir Fylki í vítaspyrnukeppni).

Selfoss - Stjarnan (klukkan 19:15 í kvöld)
Það er líf í Stjörnunni eftir hik í byrjun. Þær eru komnar með Telmu Hjaltalín og Þórdísi í vopnabúrið og það gjörbreytir hraða og dýnamík liðsins. Eftir að Anna María var færð í hjarta varnarinnar komst betra skipulag á liðið. Þær vilja líka sanna sig í bikar eftir að hafa kastað frá sér Íslandsmótinu og kunna á mótið eins og sást á því að þær sigruðu Íslandsmeistarana í síðustu umferð.

Selfoss náði að halda Þór/KA niðri á heimavelli og Alfreð getur skipulagt vörn en leikstíll Stjörnunnar sem getur spilað fleiri afbrigði af sóknarleik hentar Selfossi verr. Harpa og Gumma skora og Þórdís Hrönn stýrir fagnaðarlátunum í pulsuvagninum á leiðinni heim.

Spá Daða: 0-2 fyrir Stjörnunni.

Valur - Grindavík (klukkan 19:15 í kvöld)
Það er orðið "standard" hjá Val að skora fjögur mörk í leik. Elín Metta er sjóðheit og Crystal Thomas er spennandi leikmaður. Valur er elsta og mögulega reynslumesta lið landsins og hlýtur að stefna á að enda bikarþurrð sem hefur plagað þær rauðu síðan 2011. Handbragð Péturs Péturssonar er að koma betur í ljós og Valsarar verða stöðugri með hverri viku.

Grindavík er baráttuglatt lið og hefur troðið sokk upp í sérfræðingana með mun betri stigasöfnun en búist var við. Markvörðurinn Viviane Holzel fær vonandi launin sín greidd í gullstöngum. Með Rio Hardy fram á við er ýmislegt hægt en Valur er of stór biti, sérstaklega á heimavelli. Elín Metta skorar og pottþétt ein af hinum ungu og efnilegu leikmönnum Vals.

Spá Daða: 4-0 fyrir Val.

ÍR - Breiðablik (klukkan 14:00 á morgun)
ÍR siglir lygnan sjó í Inkasso-deildinni en nú gefur á bátinn. Breiðholtskonur eru harðar í horn að taka og Guðmundur þjálfari kann vel að bakka rútu og sækja beitt fram en ef Blikaliðið sýnir þeim tilhlýðilega virðingu verður þetta langur dagur.

Mögulega gefur Þorsteinn, þjálfari Blika, einhverjum sem hafa ekki spilað mikið tækifæri til að sanna sig. Slæmu fréttirnar fyrir ÍR eru að þar er Guðrún Arnars að trekkja sig í gang ásamt nokkrum ungum hríðskotabyssum sem eru ekki vanar að verma bekkinn og þurfa að sýna sig. Selma Sól skorar pottþétt í Seljahverfinu.

Spá Daða: 0-5 fyrir Breiðablik.

Samkvæmt Daða munu Breiðablik, Fylkir, Stjarnan og Valur skjóta sér áfram í undanúrslitin.
Athugasemdir
banner
banner
banner