Musiala efstur á blaði Man City - Sóknarmenn orðaðir við Arsenal - Colwill orðaður við Liverpool og PSG
   fim 12. september 2019 10:30
Magnús Már Einarsson
Ferðalag Royston Drenthe frá Real Madrid í hollensku C-deildina
Royston Drenthe í leik með Real Madrid.
Royston Drenthe í leik með Real Madrid.
Mynd: Getty Images
Royston Drenthe fagnar marki með Everton.
Royston Drenthe fagnar marki með Everton.
Mynd: Getty Images
Árið 2007 var Royston Drenthe valinn maður mótsins þegar U21 lið Holland varð Evrópumeistari. Real Madrid keypti Drenthe frá Feyenoord á fjórtán milljónir punda og allt benti til þess að þarna væri á ferðinni næsta stórstjarna Hollendinga.

Ferill Drenthe hefur hins vegar legið niður á við síðan þá. Hann hætti í fótbolta árið 2016 en tók takkaskóna aftur fram sumarið 2018 og spilar nú með Kozakken Boys í hollensku C-deildinni. En hvað fór úrskeiðis? BBC er með áhugaverða grein um feril Drenthe í dag.

Drenthe átti erfitt með að komast inn í liðið hjá Real Madrid og eftir þrjú tímabil þar var hann lánaður til Hercules á Spáni. Hercules var í fjárhagsvandræðum og Drenthe kunni ekki að meta það.

„Það var ekki auðvelt. Ég hugsaði 'ef þeir borga mér ekki laun þá mæti ég ekki á æfingar," sagði Drenthe í viðtali við BBC.

Drenthe fór í verkfall og gerði stuðningsmenn Hercules um leið brjálaða. Ári síðar var Drenthe lánaður til Everton en vandræði utan vallar urðu til þess að hann náði ekki að festa sig í sessi þar.

„Það gerðust ýmsir hlutir og mér var refsað fyrir hluti sem ég gerði. Það eru sjö ár síðan núna. Ég gerði villta hluti og ég vissi ekki einu sinni að ég hefði gert suma af þeim," sagði Drenthe.

Samningur Drenthe hjá Real Madrid rann út sumarið 2012 og hann samdi þá við Alania Vladikavkaz í Rússlandi. Drenthe spilaði síðar með Reading og Sheffield Wednesday í Englandi sem og liðum í Tyrklandi og Sameinuðu Arabísku Furstadæmunum.

Eftir vandæði með umboðsmenn og ógreidd laun ákvað Drenthe að leggja skóna á hilluna árið 2016, níu árum eftir að hann samdi við Real Madrid. Drenthe var þá 29 ára gamall.

Síðan þá hefur Drenthe samið tónlist og rappað undir nafninu Roya2Faces. Hann rekur einnig plötufyrirtæki, fatabúð, snyrtivörubúð og á sex börn. Það er því nóg að gera hjá honum.

Sumarið 2018 náði Henk Fraser, þjálfari Sparta Rotterdam í hollensku B-deildinni, að sannfæra Drenthe um að taka fram skóna.

Drenthe spilaði mikið með Sparta Rotterdam á síðasta tímabili en í sumar ákvað hann að fara í C-deildina til Kozakken Boys þar sem hann spilar við hlið frænda síns. Áhorfendur í hollensku C-deildinni eru í mesta lagi 2-3000 á leik. Annar veruleiki en þegar Drenthe spilaði fyrir framan 90 þúsund manns hjá Real Madrid.

„Ég sé ekki eftir neinu. Allt gerist af ástæðu. Ég sé ekki eftir neinu því ég er ánægður þar sem ég er og ég er ánægður með það hvar ég hef verið. Ég er að lifa lífinu í augnablikinu," sagði Drenthe við BBC.

Smelltu hér til að lesa grein BBC í heild

Ferill Drenthe
2005–2007 Feyenoord
2007–2012 Real Madrid
2010–2011 Hércules (lán)
2011–2012 Everton (lán)
2012–2013 Alania Vladikavkaz
2013–2015 Reading
2014–2015 Sheffield Wednesday (lán)
2015 Kayseri Erciyesspor
2015–2016 Baniyas
2018–2019 Sparta Rotterdam
2019– Kozakken Boys
Athugasemdir
banner
banner
banner