banner
   þri 03. desember 2019 19:55
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Jói Berg um meiðslin: Eins slæmt og það gat verið
Jóhann Berg gengur af velli gegn Frakklandi.
Jóhann Berg gengur af velli gegn Frakklandi.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Burnley mætir Man City á heimavelli í kvöld.
Burnley mætir Man City á heimavelli í kvöld.
Mynd: Getty Images
Landsliðsmaðurinn Jóhann Berg Guðmundsson getur ekki spilað með Burnley gegn Manchester City í kvöld vegna meiðsla.

Hann hefur ekkert spilað frá því hann meiddist í leik með Íslandi gegn Frakklandi í undankeppni EM í október.

„Síðasta var ég búinn að vera frá í sjö vikur þannig að þetta er langur tími," sagði Jóhann Berg í viðtali við Tómas Þór Þórðarson á Síminn Sport fyrir leikinn gegn Manchester City í kvöld.

„Ég tognaði frekar alvarlega aftan í lærinu og var með langa rifu. Þetta var eins slæmt og það gat verið - þannig séð. Ég er byrjaður núna á grasinu með sjúkraþjálfaranum og ætti að byrja að æfa með liðinu í næstu viku. Þetta er allt í rétta átt, en auðvitað er þetta gríðarlega svekkjandi."

Burnley mætir Man City í kvöld á Turf Moor og er það leikur sem Jóhann Berg hefði ólmur viljað spila.

„Þetta gerist ekki betra en þetta," sagði Jói um leikinn á Turf Moor í kvöld.

„Það er auðvitað svekkjandi (að geta ekki spilað). Maður er orðinn vanur því að vera á hliðarlínunni sem er auðvitað hundleiðinlegt. Vonandi verð ég kominn aftur inn á völlinn sem fyrst."

„Fyrst og fremst ætlum við að stoppa þeirra sóknarleik. Við þurfum að gera þetta eins ljótt og hægt er. Þú ferð ekki gegn City og reynir að spila samba-fótbolta. Þeir eru frábært fótboltalið og þetta verður auðvitað erfitt, en ég get lofað því að þeir eru hræddir fyrir þennan leik."

Hann segir að Burnley komi mögulega á óvart í uppstillingu sinni í kvöld.

„Það gæti verið svolítið óvænt, ég ætla ekki að gefa of mikið upp - Pep gæti verið að horfa," sagði Jói léttur.

Sjá einnig:
Byrjunarlið Burnley og Man City: Mendy og Stones á bekkinn


Athugasemdir
banner
banner
banner
banner