Kepa Arrizabalaga, markvörður Arsenal, var hetja liðsins er það komst í undanúrslit enska deildabikarsins á Emirates-leikvanginum í kvöld.
Kepa er varamarkvörður Arsenal en hann fær að spila í deildabikarnum og verið að gera ágæta hluti þar.
Hann varði áttunda víti Palace í vítakeppninni í kvöld, en hann sagðist ánægður með margt úr leik sinna mann þó það megi vissulega bæta nokkra hluti.
„Við áttum að nýta eitthvað af þessum færum sem við fengum í fyrri hálfleik. Við spiluðum svo vel en þeir breyttu kerfinu aðeins í seinni og náðu að aðlagast aðeins. Seinni hálfleikurinn var 50-50, en samt náðum við að skapa hættuleg færi. Þetta er eitthvað sem við þurfum að bæta.“
„Við höfum verið að fá á okkur mörk á síðustu mínútunum í nokkrum leikjum og það er líka annað sem við þurfum að einbeita okkur að og bæta,“ sagði Spánverjinn.
Palace tók átta spyrnur í vítakeppninni og skutlaði Kepa sér sex sinnum í sama hornið, en þá varði hann þessa einu vítaspyrnu í vítakeppninni.
„Þú verður að vera kaldur og hugsa um næsta víti. Ekki missa einbeitingu því um leið og þú verð eina spyrnu þá gæti það reynst ansi dýrmætt,“ sagði Kepa.
Athugasemdir


