Olise, Branthwaite, Gutierrez, Guimaraes, Zubimendi og fleiri góðir í slúðurpakka dagsins
   fim 29. maí 2003 14:00
Hafliði Breiðfjörð
Sanngjarn sigur ÍBV á Fylki þegar ÍBV fékk sín fyrstu stig í sumar.
Tryggva Kr. Ólafsson skrifar frá Vestmannaeyjum.
Það ríkti hátíðarstemming á Hásteinsvelli eftir leik ÍBV og Fylkis sem fram fór í blíðskaparveðri í Vestmannaeyjum í dag. Eyjamenn spiluðu oft á tíðum glimrandi knattspyrnu en það er hins vegar ekki hægt að segja um gestina sem náðu ekki að fylgja eftir góðri byrjun í sumar. Í heildina verður þessi sigur að teljast sanngjarn þar sem leikmenn ÍBV spiluðu einfaldlega betur en leikmenn Fylkis.

Leikmenn Fylkis hófu leikinn og léku þeir undan vestan gjólu. Leikurinn fór rólega af stað og var lítið sem gerðist fyrstu 20 mínúturnar fyrir utan að slakur dómari leiksins, Ólafur Ragnarsson, gaf einum leikmanni úr hvoru liði gult spjald. Leikmenn Fylkis voru meira með boltann þessar fyrstu mínútur en leikmenn ÍBV beittu skyndisóknum þar sem hinir fljótu framherjar ÍBV, Steingrímur og Gunnar Heiðar voru í aðalhlutverki.

Á 20. mínútu átti Steingrímur sendingu frá vinstri, fyrir mark Fylkis þar sem Gunnar Heiðar stökk upp en náði ekki til boltans og greip Kjartan Sturluston, markmaður Fylkis, boltann örugglega.

Sending kom á 27. mínútu inn í vítateig ÍBV eftir að leikmenn Fylkis höfðu náð góðri pressu að marki ÍBV, en Haukur Ingi Guðnason náði ekki almennilega til boltans og skot hans lak framhjá markinu.

Á 29. mínútu sendi Atli Jóhannsson háa sendingu inn á vítateig Fylkis og náði Unnar Hólm að skalla að marki en Kjartan varði í horn.

Á þessum tímapunkti í leiknum náðu leikmenn ÍBV að pressa nokkuð stíft að marki Fylkis og átti Bjarnólfur skot yfir markið og stuttu seinna átti Steingrímur skot yfir markið úr þröngu færi eftir góða sendingu Ian Jeffs.

Fylkismenn náðu góðri sókn á 41. mínútu sem endaði með skoti að marki ÍBV en boltinn hafnaði í varnarmanni ÍBV og þaðan barst boltinn til Hauks Inga sem skaut að marki en Birkir varði lélegt skot hans.

Lítið annað markvert gerðist í fyrri hálfleik.

Seinni hálfleikur byrjað svipað og sá fyrri en á 50. mínútu léku þeir Atli og Hjalti Jóhannesson laglega saman sem endaði með því að Hjalti komst inn í vítateig Fylkis og ætlaði að gefa fyrir en boltinn hafnaði í varnarmanni Fylkis og afturfyrir endamörk. Uppúr hornspyrnunni náði Bjarnólfur góðu skoti að marki Fylkis en boltinn fór hárfínt framhjá.

Á 53. mínútu fengu leikmenn Fylkis tvær hornspyrnur í röð og skapaðist nokkur hætta upp við mark ÍBV. Eftir seinni hornspyrnuna náði ÍBV skyndisókn og geystist Steingrímur fram og náði að senda boltan inn á vítateig Fylkis og var hann ætlaður Gunnari Heiðari sem þar var kominn. Kjartan varð hins vegar á undan Gunnari Heiðari í boltann og greip þarna mjög vel inní.

Enn ein glæsisóknin hjá ÍBV kom á 59. mínútu og var Steingrímur enn og aftur aðalmaðurinn. Hann sendi jarðarbolta fyrir markið frá vinstri og lét Gunnar Heiðar boltann fara sem barst til Ians. Hann átti gott skot að marki en boltinn fór hárfínt framhjá.

Á 66. mínútu náðu leikmenn ÍBV góðri pressu að marki Fylkis og tókst varnarmönnum Fylkis að hreinsa frá marki og barst boltinn inn á vallarhelming ÍBV þar sem Unnar tók boltann niður. Hann sendi síðan góða sendingu inn á vítateig Fylkis, vinstra megin, en þar var Steingrímur fyrir. Steingrímur skallaði boltann fyrir markið þar sem Ian var einn og óvaldaður og átti ekki í vandræðum með að skalla boltann í fjærhornið. Glæsilegt mark og vel að verki staðið hjá leikmönnum ÍBV og forystan verðskulduð.

Eftir markið drógu leikmenn ÍBV sig aðeins aftar á völlinn og sóttu leikmenn Fylkis nokkuð í sig veðrið eftir þetta. Þeim varð hins vegar ekki mjög ágengt upp við mark ÍBV en áttu reyndar hættulega sókn undir lok leiksins þegar sending kom fyrir mark ÍBV frá hægri en Haukur Ingi hitti ekki boltann í góðu færi.

Leikurinn fjaraði síðan út án þess að nokkuð markvert gerðist.

Þessi sigur ÍBV var mjög sanngjarn enda léku leikmenn ÍBV frábærlega saman á köflum og allt annað að sjá til liðsins heldur en í leiknum á móti KA þar sem leikur þeirra fjaraði út eftir hálftíma. Í þetta sinn héldu þeir einbeitingu allan tímann. Af öðrum ólöstuðum léku þeir Steingrímur og Tom Betts, best í liði ÍBV. Það verður hins vegar að segjast eins og er að leikur Fylkis olli nokkrum vonbrygðum og var eins og þeir væru ekki með hugann við það sem þeir voru að gera. Mikið var um feilsendingar og þá voru hinir hættulegu framherjar þeirra klaufar upp við mark ÍBV.

Spjöld:
ÍBV
7. mín. Bjarnólfur Lárusson 72. mín. Ian Jeffs
Fylkir
6. mín. Sverrir Sverrisson, 64. mín. Björn Viðar Ásbjörnsson, 85. mín. Jón B. Hermannsson.

Hornspyrnur:
ÍBV 6
Fylkir 3

Athugasemdir
banner
banner
banner