Hver tekur við af Klopp? - Dani Olmo orðaður við Man Utd - Greenwood í skiptum fyrir Gleison Bremer
   mið 01. mars 2023 12:56
Sæbjörn Þór Þórbergsson Steinke
Úlfur gæti farið í Duke í haust - Miklir peningar í spilunum
Í leik með FH í vetur.
Í leik með FH í vetur.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Úlfur Ágúst Björnsson, sóknarmaður hjá FH, gæti spilað með háskólaliði Duke næstu árin. Úlfur er nítján ára FH-ingur sem hefur leikið vel með FH á undirbúningstímabilinu, blómstraði með Njarðvík fyrri hluta síðasta tímabils og skoraði svo fjögur mörk með FH seinni hlutann.

Ef hann fer í Duke er líklegast að hann missi af endasprettinum í Bestu deildinni og missi í kjölfarið úr hluta af tímabilunum á næstu árum.

Úlfur staðfesti við Fótbolta.net að viðræður hefðu átt sér stað en enginn pappírar hafa verið undirritaðir. Íslendingar hafa getið sér gott orð í fótboltaliðum Duke. Þorleifur Úlfarsson er nýjasta dæmið en hann var valinn í nýliðavali MLS af Houston Dynamo fyrir tímabilið 2022. Landsliðsmarkvörðurinn fyrrverandi, Þóra Björg Helgadóttir, lék þá með Duke á sínum tíma.

Brynjar Benediktsson hjá Soccer and Education USA var til viðtals í hlaðvarpsþættinum Steve Dagskrá í gær og ræddi um Úlf og Duke.

„Duke er mjög áhugasamt og vill fá Úlf, þegar leikmenn fara út þá fara þeir í byrjun ágúst," sagði Brynjar.

Andri Geir, annar af þáttarstjórnendum, skaut inn að margir gætu velt fyrir sér af hverju Úlfur væri að fara, hann væri mögulega byrjunarliðsmaður í FH.

„Sex prósent af þeim sem sækja um í Duke fá samþykkta inngöngu, einn besti háskóli í heiminum. Það er eitt, síðan er hitt að Duke kostar um 12 milljónir á ári. Ef þú færð styrk fyrir fjögur ár eru það tæplega 50 milljónir. Það sem er líka að breytast í háskólaboltanum, að bestu leikmennirnir - eins og Úlfur yrði, fá skólagjöldin frítt, leigu, mat, vasapening og svo færðu líka pening sem er nýtt. Þú getur fengið sex þúsund dollara (tæplega 900 þúsund íslenskar krónur) greidda á ári. Svo máttu líka fá greitt fyrir að auglýsa vörur."

„Duke er í deild sem er í Division 1 í NCAA, í einni bestu svæðisdeildinni (Conference ACC). Ef þú ert hörku leikmaður í ACC þá er 100% að þú farir í atvinnumennsku,"
sagði Brynjar í þættinum.


Athugasemdir
banner
banner
banner
banner
banner